Söngvakeppnin kostaði 60 milljónir

Greta Salóme Stefánsdóttir flytur sigurlag sitt Hear them calling
Greta Salóme Stefánsdóttir flytur sigurlag sitt Hear them calling Pressphotos.biz

Kostnaður við Söngvakeppni Sjónvarpsins nam 60 milljónum króna. Keppnin stóð undir sér með tekjum af miðasölu og auglýsingum. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV. Þar segir að um 200 manns hafi komið að útsendingu RÚV á laugardagskvöld þegar framlag Íslands í Eurovision var valið.

Í frétt RÚV er vísað í skriftlegt svar Skarphéðins Guðmundssonar, dagskrárstjóra RÚV sem segir að um 120 þúsund atkvæði hafi borist í báðum síma-atkvæðagreiðslunum á laugardagskvöld.

Að sögn Skarphéðins fór ríflega helmingur heildarkostnaðar í úrslitakvöldið á laugardag en inni í heildartölunni eru einnig undankeppnirnar tvær í Háskólabíó, umsýsla í kringum leitina að lögunum, framkvæmdin í kringum þau, verðlaunafé „og annað sem þurfti til að gera keppnina eins veglega og raun bar vitni.“

Í svari Skarphéðins kemur fram að öll áform hafi miðast út frá því að keppnin stæði undir sér þegar taldar yrðu á móti tekjur sem féllu til af viðburðinum. „Þær áætlanir gangi eftir og vel það enda hafi selst upp á bæði úrslitakvöldið og lokaæfinguna sem fram fór fyrr um daginn og einungis hafi örfáir miðar verið óseldir á undankeppnirnar tvær.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert