Tíu milljónir á barmi hungursneyðar

Tíu milljónir manns, þar af nær sex milljónir barna, þurfa …
Tíu milljónir manns, þar af nær sex milljónir barna, þurfa á aðstoð að halda í Eþíópíu vegna þurrka. Ljósmynd/Hjálparstarf kirkjunnar

Hjálparstarf kirkjunnar hefur hafið fjársöfnun til að svara neyðarbeiðni Alþjóðlegs Hjálparstarfs kirkna, Act Alliance, vegna langvarandi þurrka í Eþíópíu. Tíu milljónir manns, þar af nær sex milljónir barna, þurfa á aðstoð að halda. Þetta kemur fram í tilkynningu. 

Þurrkarnir byrjuðu í mars á síðasta ári þegar ekki rigndi á venjubundnum vorregntíma. Ekki rigndi heldur í júlí og ágúst þannig að haustuppskera brást, dýr drápust úr þorsta og milljónir íbúa urðu þá þegar háðar matar- og drykkjaraðstoð. Stjórnvöld í Eþíópíu hafa brugðist við en útilokað er að þau ráði hjálparlaust við það neyðarástand sem nú blasir við.

Alþjóðlegt Hjálparstarf kirkna, Act Alliance, hefur sent neyðarbeiðni fyrir um 5 milljónum  bandaríkjadala til að bæta fæðuöruggi, veita húsaskjól, tryggja heilsugæslu og skólagöngu barna og til að útvega sjálfsþurftarbændum á verstu þurrkasvæðunum útsæði, búfénað og bóluefni fyrir dýrin. 

Söfnunarsími 907 2003 (2500 krónur). Söfnunarreikningur 0334-26-886, kt. 450670-0499

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert