„Alltaf komið fram við mig eins og ég væri vandamálið“

Bylgja Babýlons
Bylgja Babýlons mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það væri frábært ef skólakerfin hættu að spyrja “Hvað gerir þetta barn til að verða fyrir einelti, hvað er að því?” og færu að spyrja “Hvers vegna er þetta barn að leggja í einelti, hvað er að því?”,“ skrifar grínstinn Bylgja Babýlons í pistli á Facebook síðu sína í dag. Umræðuefni pistilsins er einelti en Bylgja hefur áður tjáð sig um það einelti sem hún varð fyrir sem barn og unglingur.

„Þegar ég var í 8-10 bekk þróaðist eineltið úr stríðni yfir í þöggun. Nema hjá litlum hópi stráka sem hóf barsmíðar. Ég mætti þessum strákum á götum úti og þeir hrintu og spörkuðu og ég var með áverka sem ég myndi hiklaust kæra til lögreglu ef einhver myndi veita mér í dag,“ skrifar Bylgja. Bendir hún á að það hafi alltaf verið komið fram við hana eins hún væri vandamálið.

„Ég sat einu sinni fund hjá skólastjóra ásamt tveimur bekkjarbræðrum mínum eftir að þeir réðust á mig á skólalóðinni. Það voru kölluð “slagsmál” okkar á milli, þó ég væri höfðinu lægri en þeir og rétt slefaði upp í 40 kílóin.“

Í pistli sínum segir Bylgja tvær ástæður fyrir því að hún ákvað að tjá sig um þetta málefni í dag.

„Önnur er mynd sem gengur um Facebook þar sem foreldrar eru hvattir til þess að segja dætrum sínum ekki að strákar sem meiði þær eða stríði séu skotnir í þeim.Hin er sú að einn þessara manna sem beittu mig ofbeldi á unglingsárunum er í dag þekktur sem “Hríseyjarnauðgarinn” en hann var að fá dóm fyrir hrottalega árás og nauðgun,“ skrifar Bylgja og bætir við að annar þeirra hafi fengið dóm fyrir nokkrum árum eftir að hann dró kærustuna sína á hárinu út af heimili þeirra út í bílskúr, eftir að hafa gengið í skrokk á henni.

„Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki hægt að lækna siðblindu en það er partur af mér sem pælir í því hvernig hefði farið ef þeir hefðu verið séðir sem vandamálið allt frá byrjun og fengið hjálp,“ skrifar Bylgja. „Það væri frábært ef skólakerfin hættu að spyrja “Hvað gerir þetta barn til að verða fyrir einelti, hvað er að því?” og færu að spyrja “Hvers vegna er þetta barn að leggja í einelti, hvað er að því?

Mér finnst leiðilegt að tala um leiðilega hluti á netinu en á sama tíma finnst mér það stundum nauðsynlegt. Ég hef áð...

Posted by Bylgja Babýlons on Thursday, February 25, 2016
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert