Gætu leitað til forsetans áfram

Bekkurinn var þétt setinn á málþinginu í Háskóla Íslands í …
Bekkurinn var þétt setinn á málþinginu í Háskóla Íslands í gær. HÍ/Kristinn Ingvarsson

Ólíkar skoðanir voru uppi um framtíð málskotsréttar forseta ef ákvæði um rétt almennings til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu fer inn í stjórnarskrá á málþingi um tillögur stjórnarskrárnefndar í Háskóla Íslands í gær. Þjóðin gæti frekar leitað til forsetans en að virkja nýtt stjórnarskrárákvæði.

Á meðal þriggja tillagna sem stjórnarskrárnefnd tilkynnti um á föstudag er ákvæði um að 15% kosningabærra manna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um nýsamþykkt lög. Verði sú breyting á stjórnarskránni samþykkt verðu 26. grein hennar eftir sem áður til staðar en hún gefur forseta landsins heimild til að hafna því að skrifa undir lög og vísa þeim til þjóðaratkvæðagreiðslu.

Að sögn Páls Þórhallssonar, formanns stjórnarskrárnefndar, taldi nefndin ekki rétt að afnema málskotsrétt forsetans nema að til stæði að fjalla heildstætt um hlutverk hans.

Rétturinn takmörkunum háður

Ragnhildur Helgadóttir, prófessor og deildarforseti lagadeildar Háskólans í Reykjavík, sagði á fundinum í gær sem Lagastofnun HÍ og Lögfræðingafélag Íslands stóðu fyrir að hún teldi rétt að halda málskotsrétti forsetans inni í stjórnarskrá jafnvel þó að almenningur fái þennan rétt til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslna.

Hún teldi hins vegar að vægi 26. greinarinnar kæmi til með að minnka þar sem nýja ákvæðið yrði væntanlega nýtt mun oftar. Þegar forsetinn hafi neitað að skrifa undir lög hafi það alltaf verið í kjölfar undirskriftasöfnunar sem sýni að gjá sé á milli vilja þings og þjóðar.

Ýmsar takmarkanir eru þó á þjóðaratkvæðisrétti almennings samkvæmt tillögu stjórnarskrárnefndar. Þannig er ekki nóg að meirihluti þeirra sem tekur þátt í þjóðaratkvæðagreiðslu á þessum grundvelli hafni lögum heldur þarf að minnsta kosti fjórðungur kosningabærra manna að hafna þeim til að niðurstaðan teljist gild. Þá er frestur til þess að krefjast þjóðaratkvæðis og safna undirskriftum aðeins fjórar vikur frá birtingu laga.

Þessar takmarkanir eiga þó ekki við um rétt forsetans og því sagðist Ragnhildur telja að ákvæði um málskotsrétt hans gæti áfram átt heima í stjórnarskránni sem nokkurs konar stjórnskipunarlegur varnagli.

Forsetinn enn með veruleg áhrif

Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands og fyrrverandi nefndarmaður í stjórnarskrárnefnd, var hins vegar á öðru máli þó að hann teldi eins og Ragnhildur að málskotsréttarákvæðið gæti haldið sér þrátt fyrir nýtt ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur.

Málskotsrétturinn kæmi til með að hafa veruleg áhrif áfram vegna þess að takmarkanirnar samkvæmt nýja ákvæðinu sem stjórnarskrárnefnd leggur til séu svo strangar. Þannig væri vegurinn að því að fella lög mun beinni í gegnum málskotsrétt forsetans sem gæti sjálfur ákveðið að synja lögum um undirskrift. Ekki væru heldur sömu takmarkanirnar á hversu langan tíma hægt væri að safna undirskriftum.

Ragnhildur benti á móti á að forsetinn hefði vald til að skrifa ekki undir lög sem þingið væri búið að samþykkja og koma þannig í veg fyrir að þau tækju gildi. Málskotsréttur almennings sem stjórnarskrárnefnd leggur nú til eigi hins vegar við fyrir nýsamþykkt lög. Sagðist hún því standa við þá skoðun sína að draga myndi úr gildi málskotsréttar forsetans verði þessi breyting að veruleika.

Ragnhildur Helgadóttir (2.f.h), Skúli Magnússon (t.h.), Páll Þórhallson (í pontu) …
Ragnhildur Helgadóttir (2.f.h), Skúli Magnússon (t.h.), Páll Þórhallson (í pontu) og Björg Thorarensen við pallborðið í hátíðarsal Háskóla Íslands í gær. HÍ/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert