Skora á Salvöru Nordal í forsetaframboð

Skorað hefur verið á Salvöru Nordal í forsetaembættið.
Skorað hefur verið á Salvöru Nordal í forsetaembættið. mbl.is/Árni Sæberg

Skorað hefur verið á Salvöru Nordal, forstöðumann Siðfræðistofnunar Íslands, að bjóða sig fram sem forseta Íslands.

„Þetta kom fyrst til tals fyrir síðustu forsetakosningar. Þá ákvað hún að bjóða sig ekki fram en þá hafði verið mikið þrýst á hana,“ segir Bryndís Emilsdóttir, sem er í forsvari hóps sem vill fá hana í embættið.

Að sögn Bryndísar hafa margir komið að máli við Salvöru eftir að Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnti að hann ætlaði ekki að bjóða sig fram á nýjan leik. „Fólk er mjög áhugasamt um að fá hana í þetta embætti og telur að hún sé mjög góður kostur,“ segir hún.

Hér má lesa áskorun sem hópurinn hefur sent frá sér:

Salvör Nordal hefur allt til að bera að vera í hlutverki forseta Íslands. Hún gæti orðið öflugt sameiningartákn landsmanna og náð til fólks. Hún væri án nokkurs efa glæsilegur fulltrúi okkar á erlendum vettvangi. Reynsla hennar og menntun hentar vel til að sinna af þekkingu og alúð þeim vandasömu verkefnum sem fylgja starfi forseta Íslands.

Salvör er menntuð í siðfræði og heimspeki og hefur lokið  doktorsgráðu. Hún starfar sem forstöðumaður Siðfræðistofnunar Háskóla Íslands og þekkir því vel til allra helst álitamála þar sem mikilvægt er að taka yfirvegaðar ákvarðanir. Hennar helst styrkur liggur meðal annars í því að hún ígrundar vel afstöðu sína til allra mála sem á hennar borð rata.

Hún var formaður stjórnlagaráðs en í því starfi öðlaðist hún mikla þekkingu á stjórnskipun og stjórnarskrá landsins. Þá sat hún í siðfræðihópi sem starfaði með Rannsóknarnefnd Alþingis. Með þessum störfum sínum hefur hún fengið góða þekkingu á uppbyggingu íslenska samfélagsins auk þess að hafa haldið fjölda fyrirlestra erlendis um lýðræði.

Salvör er vel að sér í öllu sem lýtur að menningarmálum og hefur mikinn áhuga á hverskonar listum. Hún hefur verið framkvæmdastjóri bæði Listahátíðar og Íslenska dansflokksins. Þá starfað hún um tíma við blaðamennsku. Hún hefur aldrei tekið þátt stjórnmálastarfi eða verið í stjórnmálaflokki.

Þessu öllu til viðbótar er hún heiðarleg, traust og réttsýn en slíkir eiginleikar geta skipt sköpum þegar þjóðin glímir við vandasöm viðfangsefni. Það skemmir heldur ekki fyrir að hún er lífsglöð og skemmtileg manneskja.

Við sem erum að hvetja hana til að bjóða fram krafta sína í þágu íslensku þjóðarinnar teljum hana einstaklega hæfa til starfsins og  landsmenn gætu verið stoltir af henni í stóli forseta Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert