Súkkulaðið var komið í verslanir

Vörurnar hafa verið teknar úr verslunum á höfuðborgarsvæðinu að sögn …
Vörurnar hafa verið teknar úr verslunum á höfuðborgarsvæðinu að sögn Gunnars. AFP

Tvær gerðir þeirra vara sem innkallaðar hafa verið af súkkulaðiframleiðandanum Mars voru komnar í verslanir á Íslandi áður en innköllunin átti sér stað. Þetta segir Gunnar Grétar Gunnarsson deildarstjóri innflutningsdeildar hjá Sláturfélagi Suðurlands.

„Strax klukkan átta í gær stöðvuðum við alla dreifingu úr okkar vöruhúsi og gerðum ítarlega athugun á því hvaða vörur hefðu farið frá okkur út í verslanir,“ segir Gunnar í samtali við mbl.is.

„Hérna á Reykjavíkursvæðinu var það sölufólk okkar sem fór í viðkomandi búðir og tók vörurnar til baka. Gagnvart verslunum úti á landi þá höfðum við samband og létum þær vita. Eftir okkar bestu vitund erum við því búin að nálgast alla þá aðila sem höfðu fengið vörurnar. Og ef þær eru ekki komnar aftur í hús til okkar nú þegar, þá eru þær á leiðinni.“

Ekki ástæða til að vara fólk við

Í tilkynningu frá súkkulaðiframleiðandanum Mars segir að innkallaðar séu sæl­gæt­is­teg­und­irn­ar Snickers, Mars, Mil­ky Way og Celebrati­ons, sem merkt­ar eru best­ar fyr­ir dag­setn­ing­ar frá 19. júní 2016 til 8. janú­ar 2017.

Hér á landi segir Gunnar að aðeins sé um að ræða tvær gerðir Mars pakkninga, annars vegar með fjórum stykkjum og hins vegar svokölluð 5+1 pakkning.

„Það er það eina sem hefur farið í umferð frá okkur. Sex vörur voru tilgreindar á listanum og einhverjar þeirra voru komnar til okkar en ekki enn farnar úr vöruhúsi. Við höfum líka sent tilkynningu á viðskiptavini okkar og beðið þá að líta eftir dagsetningunum ef okkur skyldi hafa yfirsést eitthvað.“

Gunnar segir að Sláturfélagið hafi þannig í gær náð að komast yfir allar þær vörur sem enn voru í verslunum.

„Vissulega eru einhver tilvik þar sem fólk hefur keypt vöruna áður en innköllunin átti sér stað. En þetta er valkvæð innköllun og aðeins eitt dæmi vitað um galla á vörunni. Við teljum því ekki ástæðu til að vara fólk við. Þessar vörur voru nýfarnar í verslanir svo við teljum okkur hafa náð góðum tökum á málinu.“

Frá framleiðslu Mars súkkulaðistykkjanna.
Frá framleiðslu Mars súkkulaðistykkjanna. AFP

Súrt að fá ekki upplýsingarnar

Sláturfélagið virðist hafa haft hraðar hendur eftir að upplýsingarnar bárust fyrirtækinu í fyrrinótt.

„Það þýðir ekkert annað,“ segir Gunnar. „En þetta var svolítið súrt, að fá ekki þessar upplýsingar áður en fjölmiðlar fengu þær. Það var einn áhyggjufullur viðskiptavinur sem hafði samband við mig eftir að hann sá umfjöllun mbl.is, þar sem talað var um innköllun í Þýskalandi og Hollandi. Ég svaraði til baka, vísaði náttúrulega í greinina og sagði að augljóslega væri svo ekki. Síðan bara dundu á okkur fregnirnar.“

Þar vísar Gunnar til fréttar mbl.is sem birtist í fyrradag, þar sem framleiðandinn hafði enn aðeins sagt innköllunina gilda fyrir Þýskaland og Holland.

Skynsamlegast að farga hér á landi

Gunnar segir ákvörðun framleiðandans vera stóra og vel ígrundaða. „Það sýnir bara að þeim er mikil alvara að slaka aldrei á kröfum til gæðanna,“ segir hann og bætir við að innköllunin hafi líklega í för með sér mikið tjón fyrir Mars, því farga þurfi mikið af vörum.

„Ég reikna með að við förgum okkar birgðum og fáum svo endurgreitt. Skynsamlegast væri að farga þeim hér á landi í stað þess að greiða fraktkostnað til að flytja þær erlendis. En þetta hefur ekki verið ákveðið og um sinn kappkostum við aðeins að fá vörurnar í hús.“

Fyrri umfjöllun mbl.is: Innköllun Mars nær til Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert