Þarf allavega 2.000 íbúðir árlega á höfuðborgarsvæðinu

Óttar Snædal á ráðstefnunni í morgun.
Óttar Snædal á ráðstefnunni í morgun. Mbl.is/Árni Sæberg

Lýðfræðileg þróun hér á landi kallar á að allavega séu byggðar um 2.000 íbúðir á ári á höfuðborgarsvæðinu. Þar af þarf um 1.500 íbúðir vegna ungs fólks sem kemur inn á húsnæðismarkaðinn umfram þá sem látast á hverju ári samkvæmt mannfjöldaspá Hagstofunnar. Til viðbótar  hefur innflutt vinnuafl aukist mikið síðustu ár og ekki sér fyrir endann á því. Áætla Samtök atvinnulífsins að slík fjölgun kalli á tæplega fimm hundruð íbúðir árlega. Þetta kom fram í erindi Óttars Snædals, hagfræðings hjá Samtökum atvinnulífsins, á fasteignaráðstefnu í Hörpunni í dag.

Til viðbótar við ofangreindar tölur sagði Óttar að fjölgun ferðamanna og vinsældir heimagistingar hafi ýtt enn frekar undir þessa eftirspurn. Benti hann á að samkvæmt könnun Ferðamálastofu frá árinu 2014 hefði verið áætlað að heimagisting væri um 18% á höfuðborgarsvæðinu. Síðan þá hefði ferðamönnum fjölgað mikið og umfjöllun fjölmiðla sýnt að hlutfallið hefði jafnvel aukist.

Mynd/Samtök atvinnulífsins

Samtals þarf því allavega 2.000 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu ár hvert að sögn Óttars til að mæta þörfinni, en hann sagði að samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins væri byggingarmarkaðurinn næstum að anna því í dag. Til viðbótar bætist að uppsafnaður skortur er frá síðustu árum þegar nýbyggingar voru mun færri en eftirspurnin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert