Vorum með sérskuldastefnu á Íslandi

Eygló segir kerfið hafa byggt upp á sérskuldastefnu fyrir hrun, …
Eygló segir kerfið hafa byggt upp á sérskuldastefnu fyrir hrun, en réttara væri að byggja upp á séreignastefnu þar sem fólk ætti raunverulegan eignarhlut í eignum sínum. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Hér á landi var ekki séreignarstefna fyrir árið 2008 heldur sérskuldastefna. Grunnstefið var að hjálpa fólki að skuldsetja sig í stað þess að eignast raunverulega í eignum. Nú er vilji hjá ríkisstjórninni að snúa þessu við. Meðal annars þarf að hafa hvata til húsnæðissparnaðar. Þetta sagði Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, á ráðstefnu um fasteignamál sem er í Hörpu í dag.

Eygló fór yfir þróun húsnæðismála hér á landi frá 2007 til 2014 og sagði hún að þar væru mestu breytingarnar að húsnæðiseigendur með lán hefðu farið úr 65,2% niður í 55,1% af heimilum landsins. Þá hefðu á sama tíma leigjendur á almennum markaði farið úr 7,6% upp í 14,8%. Þetta sýndi vel áhrif hrunsins. Upp á síðkastið hefðu svo skuldir heimilanna lækkað sem hlutfall af landsframleiðslu og að sama skapi væri veðsetningarhlutfall í sögulegu lágmarki.

Hagur íbúðaeigenda vænkast umfram hag leigjenda

En það sem hefur gerst undanfarin ár að sögn Eyglóar er að hagur íbúðaeigenda hefur vænkast meira en leigjenda. Sagði hún að vonandi gæti hún flutt aðrar fréttir á komandi ráðstefnum og sagði hún mikilvægt að horfa til þess að íbúðamarkaðurinn þyrfti að vera fyrir alla, ekki bara þá sem hefðu ráð á að leggja út fyrir eiginfjár framlagi í upphafi.

Nefndi hún að áður hafi verið lögbundinn sparnaður sem hafi svo verið afnuminn. Það hafi í framhaldinu ekki tekið nema 3-5 ár að upp var komin heil kynslóð sem átti ekkert eigið fé. Segir hún þetta endurspeglast nokkuð vel í stöðunni í dag þar sem vandinn hjá ungu fólki sé oft á tíðum ekki að það geti ekki borgað af lánum, heldur að það hafi takmarkað eigið fé til kaupa á húsnæði í upphafi.

Frá ráðstefnunni í Hörpu í morgun.
Frá ráðstefnunni í Hörpu í morgun. Mbl.is/Árni Sæberg

Sagði hún að bæði Norðmenn og Þjóðverjar hefðu lögbundinn sparnað fyrir fólk og það hefði skilað miklum árangri. Taldi hún rétt að horfa til þessa hér á landi líka. Tók hún þó fram að á því tímabili sem fólk væri að safna sér upp þyrfti að vera fjölbreytt húsnæði í boði á leigumarkaði. Þá væri alltaf hlutfall einstaklinga í þjóðfélaginu sem ekki væri skynsamlegt að þröngva út í að kaupa eigið húsnæði og taka lán, meðal annars tekjulægsti hópurinn, þeir sem væru á framfæri sveitarfélaga og mögulega fatlaðir.

Tugir gjaldaliða sem kosta hundrað þúsundir

Eygló fór svo yfir möguleika fólks að byggja sjálft í dag, en hún sagði miklar hindranir þar í gangi. Meðal annars hefði hún skoðað gjöld sveitarfélaga þegar fólk væri að byggja sjálft og taldi hún upp tugi gjaldaliða sem töldu fyrir nokkrum hundrað þúsund krónur. Sagði hún þessa löngu ferla og gjöld draga úr því að fólk byggi sjálft. Nefndi hún að í Bretlandi hefði verið komið upp einskonar upplýsingagátt fyrir fólk varðandi þessi mál sem ætti að auðvelda því ferlið.

Að lokum sagði Eygló að það væri engin ein lausn fyrir öll heimili. Sagði hún að þótt það væri stefna ríkisstjórnarinnar að ýta undir séreignarstefnu þyrfti að hafa fjölbreyttar lausnir fyrir alla. „Þurfum að tryggja öllu fólki hús, líka þeim sem hafa ekki efni á að taka lán og líka þeim sem enginn vil búa nálægt,“  sagði hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert