Hunsaði ekki aðvaranir í fjörunni

Kristinn við myndatökuna í Reynisfjöru í gær.
Kristinn við myndatökuna í Reynisfjöru í gær. Mynd/Kiki G.M.P. Stevenhagen

Ljósmyndarinn Kristinn Magnússon segist ekki hafa hunsað aðvaranir leiðsögumannsins Hermanns Valssonar þegar hann myndaði brúðhjón í Reynisfjöru í gær. 

„Það að ég hafi hunsað hann er ekki rétt. Ég hlustaði á það sem hann hafði að segja við mig og þakkaði honum fyrir. Við færðum okkur ofar í fjörunni og ég myndaði brúðhjónin í þrjár mínútur í viðbót áður en við yfirgáfum ströndina,“ segir Kristinn.

Frétt mbl.is: Sex í mikilli hættu í Reynisfjöru

Meðvitaður um hættuna 

Hann kveðst vera mjög meðvitaður um hættuna sem fylgi því að vera í Reynisfjöru og þess vegna fari hann ávallt varlega. „Ég var búinn að skoða spá um sjávarföll og vissi að það væri að falla út á þeim tíma sem ég var með brúðhjónin í fjörunni. Ég skoðaði vel hvar aldan hafði verið að brotna og hversu langt hún hafði náð upp í fjöruna. Eins og sést á mynd sem Hermann tók af mér er ég um tveimur til þremur metrum frá þeim stað þar sem hæsta alda hafði endað,“ greinir hann frá.

Kristinn er mjög ánægður með að Hermann hafi varað fólk við á sandinum enda sá hann sjálfur marga fara óvarlega þennan dag.

Ferðamenn í flæðarmálinu í Reynisfjöru.
Ferðamenn í flæðarmálinu í Reynisfjöru. Mynd/Kiki G.M.P. Stevenhagen

Brúðhjónin frá Dubai

Brúðhjónin sem hann var að mynda komu frá Dubai og báðu þau hann að fyrra bragði um að vera mynduð þar. Þetta voru önnur brúðhjónin sem Kristinn myndar í Reynisfjöru á þessu ári. Í síðustu viku kom hingað par frá Bandaríkjunum og nefndi það einnig fjöruna sem ákjósanlegan stað fyrir myndatöku. 

„Þetta virðist vera vinsæll staður hjá þessum erlendu pörum. Skógafoss og Seljalandsfoss eru líka vinsælir,“ segir hann en bætir við að erfitt sé að feta sig hjá fossunum þessa dagana vegna mikillar hálku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert