Útilokar ekki endurupptöku mála

Frá Hæstarétti Íslands.
Frá Hæstarétti Íslands. mbl.is/Styrmir Kári

Niðurstaða Hæstaréttar að endurupptökunefnd hafi ekki vald til að fella dóma úr gildi þýðir ekki að mál verði ekki tekin upp að nýju heldur aðeins að lokaorðið um það verði hjá dómstólum, að mati Skúla Magnússonar, formanns Dómarafélags Íslands. Ekki hafi verið nægilega vandað til lagasetningarinnar.

Starf endurupptökunefndar sem hefur meðal annars fjallað um óskir um að dómstólar fjalli að nýju um Guðmundar- og Geirfinnsmálin og al-Thani-málið var sett í uppnám í gær þegar Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að valdheimildir nefndarinnar sem kveðið er á um í lögum eigi sér ekki stoð í stjórnarskrá.

„Með þessum reglum hefur löggjafinn falið nefnd, sem heyrir eins og áður segir undir framkvæmdarvald ríkisins, hlutverk sem getur náð til þess að fella úr gildi úrlausnir dómstóla. Sú skipan er andstæð meginreglu 2. gr. stjórnarskrárinnar og er því lagaákvæðið, sem leiðir til hennar, ekki gild réttarheimild og verður þess vegna ekki beitt,“ segir í dómi Hæstaréttar í máli manns sem nefndin hafði úrskurðað að ætti rétt á endurupptöku.

Hafa engin sjálfkrafa réttaráhrif

Þessi niðurstaða kemur Skúla ekki á óvart sem segir að hún sé í samræmi við athugasemdir sem Dómarafélagið hafi áður gert við lögin um endurupptökunefnd. Sjálfur hafi hann lýst efasemdum um að fyrirkomulagið stæðist grunnreglur um sjálfstæði dómsvaldsins eins og nú sé komið í ljós. Dómurinn þýði fyrst og fremst að úrskurðir endurupptökunefndar hafi ekki þau áhrif sem þeim er ætlað að lögum.

„Þetta hefur fyrst og fremst þau áhrif að Hæstiréttur endurskoðar til fulls úrlausn endurupptökunefndarinnar og lítur ekki svo á að hún hafi í raun og veru gildi á dóm sem kveðinn hefur verið upp nema að rétturinn sjálfur fallist efnilega á niðurstöðu nefndarinnar. Dómurinn fellur ekki úr gildi eins og ráða má af þessum reglum sem voru settar. Þetta þýðir að sjálfsögðu ekki að mál verði ekki endurupptekin. Í raun og veru er lokaorð um hvort mál er endurupptekið og tekið til nýrrar efnismeðferðar hjá dómstólum landsins,“ segir Skúli.

Fallist dómstólar þannig ekki á niðurstöðu endurupptökunefndar hafa þeir engin sjálfkrafa réttaráhrif.

Starf nefndarinnar í uppnámi

Hitt er svo annað mál að starf endurupptökunefndar virðist í uppnámi að mati Skúla. Full ástæða sé til að endurskoða frá grunni hvernig haga beri meðferð endurupptökumála. Óhjákvæmilegt sé að komast að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið vandað nægilega til lagasetningarinnar.

„Ég held að það liggi í augum uppi,“ segir hann.

Hæstiréttur gerir ekki ágreining við að það kunni að vera æskilegt að aðrir en dómarar sem dæmdu sjálfir í máli taki afstöðu til endurupptöku. Hins vegar segir Skúli það sína skoðun að stofnun sem tekur afstöðu til endurupptöku eigi að vera hluti af dómskerfinu jafnvel þó hún sé sjálfstæð og þeir sem starfi fyrir hana eigi að fullnægja öllum kröfum sem gerðar eru til dómara.

„Ég tel að þessu valdi eigi ekki að koma fyrir hjá stjórnsýslunefnd sem heyrir undir ráðherra,“ segir hann.

Fyrri frétt mbl.is: Má ekki fella dóma úr gildi

Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands.
Skúli Magnússon, formaður Dómarafélags Íslands.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert