Ferðamenn vantar meiri upplýsingar

Upplýsingagjöf til ferðamanna má bæta stórlega segir Theodór. Mynd úr …
Upplýsingagjöf til ferðamanna má bæta stórlega segir Theodór. Mynd úr safni.

Fjölgun erlendra ferðamanna hefur í för með sér aukið álag fyrir lögregluna. Þetta segir Theodór Þórðarson yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi. Hann segir skorta upplýsingagjöf til ferðamanna um aðstæður og færð á vegum.

„Það sem hefur komið okkur svolítið á óvart núna er þessi aukning á vetrarferðum,“ segir Theodór í samtali við mbl.is.

„Við urðum vör við það í fyrra og enn meira í ár. Fyrir tveimur árum voru þetta meira og minna norðurljósaferðir í rútum en núna sjáum við mikið meira af lausatraffík, erlenda ferðamenn á eigin vegum og á eigin bílum.“

Þjónustuaðilar í stað björgunarsveita

Theodór segir að lögreglan vísi í auknum mæli á þjónustuaðila í stað þess að kalla út björgunarsveitir þegar ferðamenn festa bifreiðar sínar í snjó.

„Það eru svona sex til átta tilvik á viku þar sem ferðamenn eru að festa sig á vegum sem innfæddir myndu að öllu jöfnu ekki einu sinni reyna við. Þessu veldur náttúrulega ókunnugleiki og vanbúnaður bílanna. Sumir sem koma hingað eru að sjá snjó í fyrsta skipti og lenda því í vandræðum sem Íslendingar myndu ekki mikla fyrir sér.“

Að hans sögn virðast ferðamenn þó vera með neyðarnúmerið á hreinu.

„Þeir hringja í sinni persónulegu neyð, sem er kannski ekki mikil. Þá viljum við helst ekki kalla út björgunarsveitir nema hætta geti steðjað að viðkomandi. En þegar ekkert amar að og bíllinn er bara fastur þá erum við búin að taka upp þá reglu að kalla til þjónustuaðila með dráttarbíl sem getur þá aðstoðað ferðamennina og rukkar svo sjálfur fyrir það,“ segir Theodór og bætir við að einnig sé stundum haft samband við bændur á næstu bæjum, sem komi þá til aðstoðar.

Upplýsingagjöf til ferðamanna má bæta stórlega segir Theodór.
Upplýsingagjöf til ferðamanna má bæta stórlega segir Theodór.

Ekki eintóm varúðarskilti

Theodór segir að markaðssetningu Íslands til ferðamanna ætti einnig að fylgja fræðsla um þær hættur sem leynist hér á landi.

„Um leið og við vorum að beita fyrir útlendingana þá áttum við að huga að upplýsingagjöf til þeirra. Þó þeir séu með neyðarnúmerið á hreinu þá vantar þá ýmislegt, svo sem vef Vegagerðarinnar. Við getum bætt þetta stórlega og mætt þeim með auknum upplýsingum. Þá er ég ekki einungis að tala um eintóm varúðarskilti heldur einnig að nýta þá tæknimöguleika sem þeir nýta sér í daglegu lífi.“

Að lokum segir hann að mikinn hluta umferðarslysa í umdæmi lögreglunnar megi rekja til erlendra ferðamanna.

„Þegar maður er að taka þetta saman í hverri viku þá er það af og til nær helmingur af umferðaróhöppum þar sem þeir eiga hlut að máli. Það er talsvert lýsandi fyrir ástandið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert