Gömul íslensk hönnun í nýtt hótel

Hjalti Geir með stólinn góða á skrifstofu sinni við Laugaveg.
Hjalti Geir með stólinn góða á skrifstofu sinni við Laugaveg. Mynd/RAX

Íslensk hönnun verður í fyrirrúmi í nýju hóteli á vegum Icelandair hótela sem opnað verður í maí næstkomandi. Hótelið er búið að panta 170 eintök af stól sem Hjalti Geir Kristjánsson teiknaði árið 1963.

Hótelið rís einmitt við hlið skrifstofu Hjalta Geirs við Laugaveg, á sama reit og faðir hans, Kristján Siggeirsson, rak um árabil eigin húsgagnaverslun og framleiðslu.

Stólarnir eru ekki aðeins íslensk hönnun heldur verða þeir ennfremur framleiddir hérlendis í húsgagnavinnustofunni Grein á Vatnsleysuströnd.

Nýja hótelið verður það fyrsta sem er opnað undir nýju lífsstílsvörumerki Hilton International, sem nefnist Canopy, og heitir Hóteli Canopy Reykjavík.

Hótelið rís á svonefndum Hljómalindarreit en í Hjartagarðinum var mikið um graffitíverk á veggjum og fá sum þeirra að ganga í endurnýjun lífdaga innan veggja hótelsins.

„Það er alltaf verið reyna að fá þá sem standa í framkvæmdum til að nota íslenskt,“
segir Hjalti Geir og lítur á þetta sem hvatningu fyrir alla íslenska hönnun.

Hann er ánægður með að hönnunin lifi enda er það raunin með mörg vinsæl húsgögn í Danaveldi. „Ég fór að fletta í bókum sem ég á um dönsk húsgögn og sá þar margar týpur sem eru í fullri framleiðslu í Danmörku og eru frá upphafi sjötta áratugarins. Það er gaman þegar hlutir standast tímans tönn.“

Hjalti Geir er í ítarlegu viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins um helgina.

Icelandair hótel hafa pantað 170 eintök af þessum stól Hjalta …
Icelandair hótel hafa pantað 170 eintök af þessum stól Hjalta Geirs fyrir nýtt hótel sitt en stóllinn verður ennfremur framleiddur hérlendis. Mynd/Guðmundur Ingólfsson
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert