Um 60.000 gestir á einu ári

Ljósmynd/Whales of Iceland

Hvalasýningin, Whales of Iceland, fagnar eins árs afmæli sínu í dag. Á sýningunni má sjá 23 hvalamódel í raunstærð af þeim hvalategundum sem fundist hafa í íslensku hafi. Hvalasýningin er stærsta sýning sinnar tegundar í Evrópu og er opin allt árið í kring. Á liðnu ári heimsóttu yfir 60.000 gestir sýninguna en gert er ráð fyrir að um 80% af gestunum hafi verið erlendir ferðamenn.

Þó svo að hvalasýningin hafi verið sett á laggirnar til að svara eftirspurn erlendra ferðamanna í afþreyingu tengdri hvalaskoðun er sýningin nú orðin verkfæri fyrir námsstofnanir í landinu. Starfsmenn sýningarinnar áttuðu sig fljótlega á því eftir opnun hennar að í hugum barna og ungling á Íslandi takmarkast dýralíf í náttúru  Íslands við helstu húsdýrin, refi og fugla.

„Við erum búin að vera að keyra skólahópaprógramm fyrir leik-, grunn-, og framhaldsskóla frá því í haust. Um 3000 skólabörn hafa heimsótt okkur en við gerum ráð fyrir rúmri tvöföldun á næsta ári því nú þegar er búið að skrá um 3000 börn í hópum frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Skandinavíu,“ segir Marinó Muggur Þorbjarnarson, sem sér um fræðslu- og markaðsmál sýningarinnar.

Í dagskránni felst tveggja klukkustunda skoðun um safnið þar sem fjallað er um þjóðsögur og hegðun hvala. Rætt er um umhverfi hvala á Íslandi og á norðurskautinu. Kennararnir fá undirbúningsgögn fyrir ferðina svo þeir geti verið búnir að fræða nemendur fyrirfram og svo fá krakkarnir snjallforrit sem þau geta hlaðið niður í símana sína þar sem framkoma allar nýjustu upplýsingar um hvali eftir ferðina.

Ljósmynd/Whales of Iceland

Segir Íslendinga hafa litla þekkingu á hvölum 

Aðspurður um hvað hafi komið sér mest á óvart á þessu eina ári segir Marinó Muggur að það sé líklega hversu lítil þekking er á hvölum á Íslandi. „Fæstir hafa hugmynd um að um 23 tegundir af hvölum hafa fundist í kringum landið.“

Þá bendir hann einnig á það hversu lítil þekking sé á meðal barna á þeim spendýrum og rándýrum sem eru í kringum landið. „Flest börn byrja á því að spyrja að því hvar hákarlarnir séu en átta sig svo á því að háhyrningar éta hákarla,“ segir Marinó Muggur. „Sýningin opnar augu barna og það var það sem efldi mig í að hanna skólakerfið.“

Marinó Muggur leggur áherslu á að um hvalasýningu sé að ræða en ekki safn. „Það þýðir að allt er manngert hjá okkur, módelin unnin eftir íslenskum rannsóknum og handmáluð. Hér eru engin bein eða neitt af raunverulegum hvölum. Þetta gerir okkur á hlutlausu svæði. Við erum fyrst og fremst fræðslumiðstöð og hingað getur fólk komið inn og fræðst án þess að við séum með raunveruleg bein sem gestirnir vita ekki hvort séu úr hvalveiðum eða hvalreka. Þetta skiptir erlenda ferðamenn gríðarlegu máli.“

Ljósmynd/Whales of Iceland

Hann segir sýninguna vera fræðslumiðstöð sem er í sambandi við öll hvalaskoðunarfyrirtæki á landinu. „Við viljum opna landssvæðið og tengja allt.“ Hann segir ferðamenn gjarnan koma fyrst á sýninguna til þess að fræðast um hvalina áður en haldið er út á sjó. „Þá fá þeir gjarnan tips til dæmis um hvar sé best að sjá steypireyð á ákveðnum tíma eða háhyrning.“

Í tilefni afmælisins var kvikmyndin Free Willy sýnd á sýningunni í dag en í móttökunni má finna líkan af háhyrningnum Keikó í fullri stærð.

Ljósmynd/Whales of Iceland
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert