Hvergi nærri hámarki ferðamannafjölda

Ragnheiður Elín Árnadóttir.
Ragnheiður Elín Árnadóttir. mbl.is/Rósa Braga

Ísland er hvergi nærri komið að hámarki varðandi ferðamannafjölda til landsins, en fjölgun ferðamanna er þó ekkert sjálfsagt markmið, heldur gæði og að gera ferðaþjónustuna að stöðugri heilsársatvinnugrein. Aukið framboð af flugi og fjölgun ferðamanna undanfarin ár hefur gert það að verkum að Ísland er núna sveigjanlegri viðkomustaður ferðamanna og þjónusta eins og gisting og veitingar í hærri gæðum en áður. Þetta segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, í viðtali við mbl.is.

„Markmiðið er stöðugur vöxtur til framtíðar,“ segir Ragnheiður og segir hún að undirmarkmiðið sé að fá auknar tekjur í þjóðarbúið af ferðamönnum. Þannig muni greinin styrkjast sem ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar til allrar framtíðar.

Aðspurð hvað hún telji hármarksfjölda ferðamanna sem landið geti tekið við segir Ragnheiður að án þess að vera með neina spá sjálf telur hún okkur ekki nálægt hámarkinu. Segir hún ekkert víst að fjöldi ferðamanna fari yfir 2 milljónir á næstunni þó fjölgun ferðamanna hafi verið 30-40% undanfarin ár og að það stefni í ríflega fjölgun áfram í ár.

„Við þurfum þó að skipuleggja okkur betur, setja aðgangsstýringar og taka ákvarðanir víða þar sem þörf er á til að tryggja upplifun ferðamanna,“ segir Ragnheiður. Bætir hún við að búið sé að byggja ákveðinn grundvöll með vegvísi í ferðaþjónustu og stofnun stjórnstöðvar ferðamála.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert