Nokkrir handteknir í nótt

mbl.is/Júlíus

Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og í nótt. Lögreglu bárust þrjár tilkynningar um heimilisofbeldi og var einn maður og ein kona handtekin. Konan var jafnframt grunuð um rán í öðru máli sem var tilkynnt til lögreglu í nótt.  Fleiri voru handteknir vegna árása og ölvunar.

Klukkan 00:37 var tilkynnt um heimilisofbeldi í húsi í Breiðholti, en málið var afgreitt á vettvangi og yfirgáfu kona og börn heimilið en heimilisfaðirinn varð eftir heima.

Skömmu áður hafði stúlka komið á lögreglustöðina við Hverfisgötu til að tilkynna að hún hefði verið rænd af stúlku sem hótaði henni með eggvopni. Stúlkan sagðist hafa verið að bíða eftir bróður sínum sem var að klára vinnu sína á veitingastað í vesturbænum. 

Rétt fyrir klukkan fjögur í nótt var síðan tilkynnt um heimilisofbeldi í húsi í Hafnarfirði. Þarna var handtekin stúlka sem ógnaði heimilisfólki með eggvopni. Hún var flutt á lögreglustöðina við Hverfisgötu þar sem hún var vistuð í fangageymslu. Við frekari rannsókn kom í ljós að hún var grunuð um ránið sem hafði áður verið tilkynnt til lögreglu.

Þá var tilkynnt um heimilisofbeldi í heimahúsi í Grafarvogi klukkan fjögur í nótt. Karlmaður var handtekinn og vistaður í fangageymslu vegna frekari rannsóknar. 

Kona réðst á dyraverði og karlmaður káfaði á konum

Verkefni lögreglu voru mun fleiri, en um klukkan hálf tvö í nótt var tilkynnt um konu sem hafði ráðist á dyraverði á skemmtistað í miðbænum þegar vísa átti henni út af staðnum. Hún sló tvo dyraverði og var í framhaldi tekinn í tök. Karlmaður sem hún var með réðst þá á dyraverðina. Lögregla kom á vettvang og skakkaði leikinni. Rætt við alla aðila málsins og að því loknu voru gerendur lausir.

Um klukkustund síðar var tilkynnt um karlmann sem var að káfa á konum í miðbænum. Skömmu síðar var maður handtekinn sem er grunaður um verknaðinn. Mun hann hafa gerst fjölþreifinn og voru a.m.k. fjórar konum sem bentu á hann sem geranda. Hann vistaður í fangageymslu og verður yfirheyrður þegar af honum rennur.

Rétt fyrir klukkan þrjú var tilkynnt um líkamsárás á skemmtistað í miðbænum. Þarna var flösku kastað í andlit manns og fékk hann skurð á enni. Var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Gerandi handtekinn og hann vistaður í fangageymslu. Verður hann yfirheyrður þegar af honum rennur.

Féll af svölum

Á sjötta tímanum í morgun var tilkynnt um mann sem féll af svölum. Fallið er sagt hafa verið tveir til þrír metrar. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild. Nánari upplýsingar um líðan mannsins liggja ekki fyrir. 

Lögreglan hafði einnig afskipti af ölvuðum ökumönnum og þá sinnti lögreglan á höfuðborgarsvæðinu 42 útköllum vegna annarra mála sem öll tengdust ölvun, mest var um hávaðamál í heimahúsum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert