Samfellt brot málverkafölsunar

„Ég rannsakaði verkin að beiðni dönsku lögreglunnar og vann skýrslur …
„Ég rannsakaði verkin að beiðni dönsku lögreglunnar og vann skýrslur þar sem niðurstaðan var sú að verkin væru fölsuð og tilheyrðu sama hópi verka og við þekkjum úr fölsunarmálinu,“ segir Ólafur Ingi Jónsson, forvörður Listasafns Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

Ekki verður lögð fram kæra vegna tveggja verka sem eignuð eru listmálaranum Svavari Guðnasyni (1909-1988) þrátt fyrir að forvörður hafi komist að þeirri niðurstöðu að þau séu fölsuð. Danska lögreglan lagði hald á verkin haustið 2014 þegar bjóða átti þau upp en hún telur málið fyrnt. Forvörður segir verkin tilheyra sama hópi verka og koma úr „stóra málverkafölsunarmálinu.“

Ég rannsakaði verkin að beiðni dönsku lögreglunnar og vann skýrslur þar sem niðurstaðan var sú að verkin væru fölsuð og tilheyrðu sama hópi verka og við þekkjum úr fölsunarmálinu sem snerist um verk eftir Svavar Guðnason og aðra listmálara,“ segir Ólafur Ingi Jónsson, forvörður hjá Listasafni Íslands. Í september árið 2014 lagði danska lögreglan hald á tvö verk eftir listmálarann Svavar Guðnason í uppboðshúsinu Bruun Rasmussen í Kaupmannahöfn rétt áður en uppboð á verkunum átti að fara fram. Eftir rannsókn á verkunum mun danska efnahagslögreglan ekki leggja fram kæru þar sem hún telur að brotin séu fyrnd.

Ekki eru nema fimm ár liðin frá því að verki eftir Svavar var skilað aftur til sama uppboðshúss í Danmörku og það endurgreitt kaupandanum því verkið reyndist falsað, að sögn Ólafs Inga.

Angi af „stóra málverkafölsunarmálinu“

Ólafur Ingi segir verkin vera anga af „stóra málverkafölsunarmálinu“ svokallaða en tveir hæstaréttardómar féllu vegna ákæru um málverkafölsun, annar árið 1999 og hinn 2004 vegna verka sem gengu kaupum og sölum á 10. áratug síðustu aldar. Í fyrri dómi Hæstaréttar var fullsannað að þrjú verk væru fölsuð og var ákærði, galleríeigandi, dæmdur fyrir skjalafals og fjársvik en ekki fyrir málverkafölsun.

Sakborningar í seinna málinu, voru eigandi og viðskiptafélagi Gallerís Borgar. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að 42 myndlistarverk sem höndlað var með hefðu verið fölsuð, sakborningarnir voru sakfelldir og dæmdir í sex og fjögurra mánaða fangelsi. Í Hæstarétti voru þeir sýknaðir vegna formgalla og ástæðan var m.a. sú að vitni í málinu var talið vanhæft en það var forvörður sem starfaði við Listasafn Íslands en safnið var einnig aðili að málinu.

Ekki eldri en frá 1994

Ólafur Ingi telur að fölsuðu verkin tvö sem nefnast Komposition séu ekki mikið eldri en frá árinu 1994 og hafi komist í umferð á sama tíma og fjölmörg fölsuð verk gengu kaupum og sölum í Gallerí Borg á 10. áratugnum. Á þeim tíma var Gallerí Borg í samstarfi við dönsku uppboðshúsin Bruun Rasmussen og Kunsthallen. Síðar sameinuðust þessi tvö dönsku uppboðshús undir heiti Bruun Rasmussen.

„Bæði þessi stóru uppboðshús í Danmörku voru að selja verk og áttu í viðskiptum við þessa einstaklinga, Pétur Þór [Gunnarsson] og Jónas [Freydal] sem voru sakfelldir í héraðsdómi fyrir að höndla með fölsuð verk,“ segir Ólafur Ingi. Tengsl málverkanna tveggja sem danska lögreglan lagði hald á haustið 2014 við stóra málverkafölsunarmálið eru að mati Ólafs Inga með þeim hætti að upphaflega koma þau frá þessum einstaklingum á 10. áratugnum.

Annað verkanna sem Ólafur Ingi telur að séu fölsuð var selt í Galerí profilen á Jótlandi árið 1994 á sýningu sem galleríið hélt með olíu-, pastel- og vatnslitaverkum eftir Svavar Guðnason og þar kaupir danskur málverkasafnari það. Að sögn Ólafs Inga voru milligöngumenn að þeirri sýningu Pétur Þór hjá Gallerí Borg og Jónas Freydal. „Um þá sýningu hef ég alltaf sagt að mörg af þeim verkum sem voru þar voru fölsuð,“ segir Ólafur Ingi. Á þeirri sýningu voru verk frá ekkju Svavars, Ástu Eiríksdóttur. „Kannski fara verkin af heimili Ástu, lenda aldrei inni á sýningunni, eru fölsuð á leiðinni og svo eru fölsuðu verkin send inn á sýninguna í staðinn fyrir hin eða afbrigði af öðrum verkum líkt og fölsunin sem hér um ræðir,“ segir Ólafur Ingi.

Nokkrum árum áður, árið 1991, var boðið upp verkið Komposition eftir Svavar Guðnason í Kunsthallen, sem verkið Komposition er stælt eftir.

Hitt verkið sem danska lögreglan lagði hald á var selt hjá Kunsthallen í september árið 1994 og er stæling á „Kosmísku landslagi“ eftir Svavar frá árinu 1948.

Árið 1998 leggur Ólafur Ingi fram gögn til beggja uppboðshúsanna og dönsku lögreglunnar um fjölda verka eftir íslenska listmálara í Danmörku sem hann grunaði að væru fölsuð og tengdust þessum uppboðshúsum í Danmörku. Á Íslandi ári síðar, 1999, féll fyrri dómur Hæstaréttar vegna ákæru um málverkafölsun og þar kom Bruun Rasmussen við sögu.

Ábyrgðin liggur hjá uppboðshúsinu

Ábyrgðin að selja þessi verk eftir Svavar liggur hjá uppboðshúsinu, Bruun Rasmussen. Það er skylda þess að kanna vel bakgrunn þeirra verka sem það selur og enn brýnna í ljósi aðstæðna, segir Ólafur Ingi. „Það er ekki hægt að komast að neinni annarri skynsamlegri niðurstöðu en að forstöðumönnum beggja þessara dönsku uppboðshúsa, sem bera ábyrgð innan þessara deilda fyrirtækjanna, var fullljóst að þetta voru falsanir. Sérfræðingar uppboðshússins vissu nákvæmlega hvað þeir voru með í höndunum þegar þeir buðu verkið upp árið 2014. Þeir vita að verkið kemur upphaflega frá þessum íslensku aðilum fyrir 20 árum. Eftir dóminn hefur ekkert breyst í Danmörku. Ekkert. Þekkingin er engu ríkari um að marflatt málverk með plastmálningu geti ennþá verið verk eftir Svavar Guðnason þegar niðurstaða málsins er að svo geti aldrei verið. Það hefur lengi legið fyrir,“ segir Ólafur Ingi og heldur áfram: „Brotið er samfellt. Þeir setja alltaf á markaðinn nýtt og nýtt verk. Það er engin fagmennska á bak við það.“

Ólafur Ingi segir að vinnubrögðin sem uppboðshúsið ætti að viðhafa séu að hafa samband við alla þá sem hefðu keypt viðkomandi verk eða verk sem þessir íslensku aðilar höfðu borið inn í fyrirtækið, fengið að skoða þau og rannsaka og þá sannfærst um hvort þau væru fölsuð eða ekki. Fyrir utan niðurlæginguna þá er það of kostnaðarsamt fyrir uppboðshúsin, bendir Ólafur á, ef málavextir eru ekki alvarlegri en það.

Ólafur Ingi hefur verið ótrauður að benda á verk sem hann grunar að séu fölsuð og eru í umferð. Hann segir að það varði hagsmuni almennings og íslenskrar listasögu. „Ég hef bara hagsmuni almennings að leiðarljósi. Ekkert annað. Þetta eru alls ekki mínir hagsmunir. Það er líka þess vegna sem málinu er vísað frá því ég hef ekki ríkari kröfu. Ég er ekki höfundarrétthafi, ef ég hefði ríkari kröfur þá væri þetta öðruvísi og gæti þá lagt fram að ég vildi fá þetta og hitt.“

Ólafi Inga finnst liggja beinast við og mjög mikilvægt að höfundarréttarhafar eða Myndstef í nafni þeirra geri þá kröfu á hendur Bruun Rasmussen eða dönskum yfirvöldum að fölsuðu verkunum sem fóru í gegnum uppboðshúsin verði útrýmt af markaði.

Mikið hagsmunamál

„Aðgerðirnar munu markast af því sem kemur fram í tillögum nefndarinnar og ég get ekki tekið afstöðu til þess fyrr en hún hefur skilað formlega. En mér hefur sýnst að við þurfum að beina sjónum okkur að uppbyggingu á getu og þekkingu til þess að fást við þessi mál,“ segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra, spurður út í aðgerðir til að sporna við fölsun á málverkum og vísar til nefndar sem ráðuneytið skipaði um þetta efni, sem mun skila tillögum líklega í næsta mánuði.

„Það skiptir máli að hægt sé að treysta því að þau listaverk sem eru keypt séu ófölsuð. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir listaverkamarkaðinn. Fyrir listamennina sjálfa, þá sem selja listina og kaupendur,“ segir Illugi.

Spurður hvort hann telji líklegt að tillögur nefndarinnar eigi eftir að hafa áhrif á núverandi stöðu á markað með listaverk sem hefur lítið breyst frá því málið kom upp fyrir rúmu 10 árum, segist hann ekki geta sagt nákvæmlega til um það. „Ekki fyrr en við vinnum úr niðurstöðunum,“ segir Illugi.

Nánar í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. mbl.is/Árni Sæberg
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert