Frumvörpin gegn kennitöluflakki verða fleiri

Karl Garðarsson alþingismaður.
Karl Garðarsson alþingismaður. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Karl Garðarsson þingmaður Framsóknarflokksins, lagði í síðustu viku fram, ásamt 10 öðrum þingmönnum, frumvarp til að sporna gegn kennitöluflakki. Karl hefur nú greint frá því að hann ætli sér að leggja fram allt að tíu mál fyrir þingið á komandi mánuðum, allt mál sem snúa að kennitöluflakki.

Sjá frétt mbl.is: Vilja sporna gegn kennitöluflakki

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Karli í dag. Um er að ræða allt að tíu frumvörp og þingsályktunartillögur. Frumvarpið sem Karl lagði fram þann 22. febrúar snýr að breytingu á hlutafélagalögunum. Samkvæmt frumvarpinu eiga stofnendur, stjórnarmenn og framkvæmdastjórar hlutafélaga ekki að mega hafa verið í forsvari fyrir tvö eða fleiri félög sem hafa orðið gjaldþrota ásíðustu þremur árum.

Í tilkynningunni segir Karl: „Það hefur verið kvartað undan því að kennitölufrumvarpið sé íþyngjandi. Þannig er fullyrt að hugsanlega munum við missa af næsta Bill Gates á meðal vor, ef menn fá ekki að setja nokkur fyrirtæki á hausinn, með tilheyrandi kostnaði fyrir þjóðfélagið, áður en þeir slá í gegn. Rétt er að benda á og ítreka að frumvarpið gerir einungis ráð fyrir að menn taki pásu eftir tvö gjaldþrot á þremur árum.  Kannski geta þeir þá unnið betur að viðskiptaáætlunum sínum.Er það ósanngjörn krafa?

Það er undarleg hugmyndafræði að líta á kennitöluflakk, tollalagabrot eða skattsvik sem saklausan hlut. Kostnaður þjóðfélagsins nemur allt að 100 milljörðum króna á ári. Ríkið tapar, starfsmenn tapa, birgjar tapa o.sv.frv. Oft leiðir þetta til keðjuverkandi gjaldþrota.

Að lokum segir Karl um þingmálin tíu: „Verða þau íþyngjandi? Já, eflaust mörg þeirra. En umferðarlögin eru líka íþyngjandi, ef menn vilja taka slíka umræðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert