SA rýnir í eldsneytisskýrslu

mbl.is/Kristinn

Samtök atvinnulífsins (SA) hafa sent Samkeppniseftirlitinu umsögn um frummatsskýrslu þess um eldsneytismarkaðinn. Var það Samkeppniseftirlitið sem óskaði eftir sjónarmiðum og athugasemdum SA við skýrsluna.

Í tilkynningu frá Samtökum atvinnulífsins kemur m.a. fram að helstu niðurstöður skýrslunnar um eldsneytismarkaðinn árið 2012 séu þær að ekki koma fram vísbendingar um að fyrirtækin sem starfa á markaðnum fari í bága við samkeppnislög í rekstri sínum. Í öðru lagi er bent á að full samkeppni ríkir um sölu á eldsneyti til fyrirtækja og í þriðja lagi að tilteknar aðstæður takmarki samkeppni í smásölu bifreiðaeldsneytis.

„Samkeppniseftirlitið telur að álagning á bifreiðaeldsneyti í smásölu árið 2012 hafi verið óeðlilega há en útreikningar eftirlitsins á því hvað ætti að vera eðlilegt bensínverð á Íslandi eru ekki sannfærandi,“ segir í tilkynningu SA.

Í umsögn SA, sem nálgast má í heild sinni á heimasíðu samtakanna, kemur fram að Samkeppniseftirlitið hafi lagt fram ýmsar tillögur og hugmyndir til úrbóta á eldsneytismarkaðnum. Stofnunin hafi komist að því að olíufélögin séu ekki að skila umframarðsemi en ástæðuna megi að öllum líkindum rekja til þess að hér sé „gríðarmikill fjöldi eldsneytisstöðva og nýting á þeim léleg í alþjóðlegum samanburði.“

Samtök atvinnulífsins telja það galla að ekkert mat er lagt á áhrif af einstaka tillögum þótt almennt sé þeim ætlað að auka samkeppni.

„Ekki er þeim heldur raðað í forgangsröð þannig að unnt sé að sjá hvað Samkeppniseftirlitið telji mikilvægast og geti skilað mestum árangri. Mikilvægt er að svo verði gert fyrirfram og það mat kynnt og lagt fram til umsagnar þannig að gagnsæi ríki um alla þætti mats stofnunarinnar.“

Samtök atvinnulífsins telja að hafa verði í huga að úttekt stofnunarinnar á eldsneytismarkaðnum taki fyrst og fremst til ársins 2012 en að aðgerðir sem Samkeppniseftirlitið kunni að grípa til muni taka gildi fjórum til fimm árum síðar og horfa til frambúðar en aðstæður á eldsneytismarkaði breytast nú hratt.

Neytendum bjóðast t.d. nýir möguleikar til að draga úr eldsneytiskostnaði með auknu framboði bíla sem nýta raforku eða metan að hluta eða öllu leyti sem eldsneyti. Tækniþróun undanfarinna ára kemur fram í sífellt sparneytnari bílvélum. Ekki er minnsti vafi á að þessi þróun mun halda áfram og að á næstu áratugum munu olíufélögin þurfa að búa sig undir grundvallarbreytingar á hefðbundnum eldsneytismarkaði sem ekkert er um fjallað í skýrslu Samkeppniseftirlitsins.

Umsögn Samtaka atvinnulífsins í heild sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert