Eins og fíll í glervöruverslun

Bergvin Oddsson, fyrrum formaður Blindrafélagsins.
Bergvin Oddsson, fyrrum formaður Blindrafélagsins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Skýrsla sannleiksnefndar Blindrafélagsins er ekki hvítþvottur fyrir Bergvin Oddsson, fyrrverandi formann félagsins, sem hef­ur verið kærður til lög­reglu fyr­ir auðgun­ar­brot og misneyt­ingu gegn ung­um fé­lags­manni, Patreki Andrési Axelssyni.

Þetta segir í yfirlýsingu frá stjórn Blindrafélagsins þar sem segir að frá því sé langur vegur.

„[Skýrslan] tekur í fyrsta lagi af öll tvímæli um að Bergvin var í raun eins og fíll í glervöruverslun allar götur frá því hann settist í formannsstólinn,“ segir í yfirlýsingunni.

„Í skýrslunni eru meðal annars nefnd ámælisverð afskipti formannsins af innkaupum vegna bjórsmökkunarnámskeiðs, afsögn formanns skemmtinefndar vegna afskipta stjórnarformannsins, gerræðisleg vinnubrögð gagnvart framkvæmdastjóra félagsins, tilraun formanns til að hækka eigið starfshlutfall en minnka lögbundið verksvið framkvæmdastjóra, vörslu og skil á áfengi eftir jólafund, umdeild afskipti af hefðbundnu fyrirkomulagi jólagjafa til starfsfólks félagsins og áfram mætti lengi telja. Í öllum tilfellum var formaðurinn í einkadansi og engum takti við félaga sína í stjórninni.“

Segir í yfirlýsingunni að sannleiksnefndin sé ekki í nokkrum vafa um dómgreindarskort Bergvins, sem misnotað hafi aðstöðu sína með því að lokka Patrek til að leggja allt sparifé sitt á einkareikning Bergvins til að nota í fasteignabrask. Þá segi í skýrslunni að í u.þ.b. hálft ár hafi Bergvini tekist að koma í veg fyrir að félagar hans í stjórninni fengu nokkurn pata af viðskiptatengslum hans og Patreks. Sú mikla leynd sem Bergvin hafi viljað að hvíldi yfir samskiptunum sé eins og sér ákaflega sérstök.

Stjórnin varð að grípa í taumana

„Þegar Patrekur leitaði til stjórnarinnar um aðstoð við að fá peninga sína til baka blasti við veruleg hætta á því að málið rataði í fjölmiðla. Ef stjórnin hefði ekki brugðist tafarlaust við hefði kastljós fjölmiðlanna beinst að fjármálalegri misnotkun, blekkingum og þöggun innan Blindrafélagsins. Hún hefði beinst að meintri misnotkun formannsins sem stjórnin neitaði að grípa inn í þrátt fyrir eindregna og örvæntingarfulla beiðni fórnarlambsins,“ segir í yfirlýsingunni.

„Og gleymum því ekki að enda þótt Patrekur sé nýlega orðinn lögráða er hann ungur að árum og að auki í þeirri lamandi stöðu að hafa nýlega fengið úrskurð um ólæknandi blindu sína.  Öll þekkjum við angistina og óöryggið sem slíkum tíðindum fylgja. Þess vegna er Blindrafélagið svo mikilvæg stoð og stytta okkar og löng hefð er fyrir því að í þeim efnum er formaður félagsins fremstur í flokki. Í þessu tilfelli brást Bergvin hlutverki sínu gróflega. Framhjá þeirri staðreynd gat stjórn félagsins aldrei litið. Hún varð að grípa í taumana og afstýra því sem ella hefði orðið að stórslysi.“

Í yfirlýsingunni segir að í skýrslu sannleiksnefndarinnar sé jafnframt fjallað um margt sem betur hefði mátt fara í verklagi stjórnarinnar þegar ákvörðun um vantraust á formann var tekin. Hún gagnrýni hins vegar ekki ákvörðunina sjálfa heldur aðdraganda hennar, það sé lykilatriði.

Þá bendi nefndin á nauðsyn þess að Blindrafélagið komi sér upp siðareglum og skýrum verkferlum.

„Við erum sammála nefndinni um það og vonandi er að aðalfundurinn okkar verði með þeim hætti að ný stjórn geti tekið við og einbeitt sér að uppbyggjandi málum morgundagsins í stað þess skotgrafahernaðar sem því miður hefur verið allsráðandi síðustu vikurnar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert