Í einangrun vegna árásar og frelsissviptingar

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð sem Héraðsdómur Reykjaness kvað upp yfir …
Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhaldsúrskurð sem Héraðsdómur Reykjaness kvað upp yfir manninum. mbl.is/Ómar Óskarsson

Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð yfir manni sem er sakaður um rán, líkamsárás og frelsissviptingu um miðjan febrúar. Maðurinn réðist inn á heimili konu ásamt fjórum grímuklæddum mönnum og beitti hana ofbeldi. Hótaði maðurinn konunni ítrekað lífláti eftir árásina.

Maðurinn, sem er ekki búsettur hér á landi, kærði gæsluvarðhaldið og einangrunina sem hann var úrskurðaður í til 4. mars til Hæstaréttar. Þar var úrskurður Héraðsdóms Reykjaness hins vegar staðfestur.

Í greinargerð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu kemur meðal annars fram að maðurinn hafi verið handtekinn 25. febrúar en árásin átti sér stað 16. febrúar. Konan lýsti því í skýrslutöku hjá lögreglu að maðurinn auk eins annars hafi ráðist inn á heimili hennar ásamt fjórum grímuklæddum mönnum sem hafi talað ensku og spænsku sín á milli. Mennirnir hafi haldið henni á heimilinu í um sex klukkustundir, bundið hana niður, beitt hana ofbeldi m.a. notað rafbyssu á hana og tekið hana kyrkingartaki svo hún hafi liðið út af í tvígang meðan þeir hafi verið á heimili hennar.

Þegar mennirnir hafi farið hafi þeir haft á brott með sér skartgripi og peninga í eigu brotaþola. Brotaþoli hafi leitað á slysadeild eftir atvikið vegna áverka sem hún hafi hlotið.

Málið er talið tengjast því að konan hafi átt að geyma fíkniefni sem kærði hafi flutt hingað til lands á síðasta ári og sem lögregla hafi síðar lagt hald á á heimili hennar. Eigi kærði að hafa hótað konunni lífláti myndi hún ekki greiða honum 5.000.000 króna vegna umræddra fíkniefna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert