Kaldasti febrúar frá 2002

Þá var mánuðurinn kaldasti febrúar á Akureyri síðan árið 2009.
Þá var mánuðurinn kaldasti febrúar á Akureyri síðan árið 2009. Skapti Hallgrímsson

Febrúarmánuður var sá kaldasti í Reykjavík síðan 2002 og var meðalhitinn tæplega einni gráðu lægri neðan meðaltals áranna 1961 til 1990. Þá var mánuðurinn kaldasti febrúar á Akureyri síðan árið 2009.

Mesta frost í mánuðinum mældist  -22,5 gráður við Mývatn og hlýjast var á Seyðisfirði um miðjan mánuðinn, eða tíu stiga hiti. Úrkoma var yfir meðallagi um landið norðaustan- og austanvert, en nærri meðallagi eða lítillega undir því um landið suðvestan- og vestanvert.

Svo virðist sem úrkoma í febrúar hafi aldrei mælst meiri en nú í Litlu-Ávík á Ströndum og í Svartárkoti. Þessi nýju met eru þó aðeins sjónarmun hærri en þau eldri.

Sólskinsstundir í Reykjavík mældust 85,6 og er það 34 stundum yfir meðallagi áranna 1961 til 1990 – með meira móti í febrúar, en langt frá meti.

Snjóþungt var víða um land, en vegna þess hvað vindur var hægur lengst af var snjórinn furðumikið til friðs. Alhvítir dagar í Reykjavík voru 27, 14 fleiri en að meðallagi 1971 til 2000 og hafa ekki verið jafnmargir í febrúar síðan árið 2000. Snjómagn var líka í meira lagi, líka það mesta í febrúar síðan 2000.

Alhvítt var allan mánuðinn á Akureyri, 7 dögum lengur en í meðalári. Febrúar var einnig alhvítur á Akureyri árið 2014 og hefur alls 13 sinnum verið á þeim 93 árum sem snjóhuluathuganir ná til þar á bæ. Ekki hefur þó verið alhvítt í hlaupársmánuði á Akureyri síðan 1936.

Síðustu daga mánaðarins mældist snjódýpt á Akureyri 111 cm og hefur ekki mælst meiri áður í febrúar og ekki meiri almennt síðan í mars 1995. Snjódýptarmet febrúarmánaðar féllu einnig í Reykjahlíð við Mývatn, á Grímsstöðum á Fjöllum og á Bassastöðum í Steingrímsfirði.

Hér má sjá yfirlit yfir tíðarfar í febrúar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert