Lét Alzheimersjúkling millifæra 42 milljónir

Héraðsdómur Austurlands.
Héraðsdómur Austurlands. mbl.is/Gúna

Karlmaður á sextugsaldri hefur verið ákærður fyrir auðgunarbrot með því að hafa fengið karlmann á níræðisaldri til að millifæra á sig 42 milljónir í þremur millifærslum árið 2014. Var maðurinn búsettur á sjúkradeild Heilbrigðisstofnunar Suðausturlands á Hornafirði og var haldinn minnistruflun vegna langt gengins Alzheimer sjúkdóms. Málið var þingfest í Héraðsdómi Austurlands í dag.

Er sá ákærði talinn hafa notfært sér bágindi og fákunnáttu mannsins, en vegna sjúkdómsins var hann haldinn vangetu til að átta sig á tölum. Fékk ákærði manninn til að framkvæma þrjár millifærslur upp á 42 milljónir og ráðstafa allri fjárhæðinni til ákærða.

Segir í ákærunni að maðurinn hafi sökum ástands síns hvorki getað gert sér grein fyrir  þýðingu ráðstafananna né um hve mikla fjármuni væri að ræða, til þess að afla sjálfum sér fjármunanna án nokkurs endurgjalds, en ákærða gat ekki dulist framangreint ástand hans.

Vísað er til þess að ákærði hafi brotið af sér í samræmi við 253. grein almennra hegningarlaga:

253. gr. Hafi maður notað sér bágindi annars manns, einfeldni hans, fákunnáttu eða það, að hann var honum háður, til þess að afla sér með löggerningi hagsmuna eða áskilja sér þá, þannig að bersýnilegur munur sé á hagsmunum þessum og endurgjaldi því, sem fyrir þá koma eða skyldi koma, eða hagsmunir þessir skyldu veittir án endurgjalds, þá varðar það fangelsi allt að 2 árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert