Létu boxið síga niður í Þór

Afhendingin fór fram í varðskipinu Þór og létu sigmenn Landhelgisgæslunnar …
Afhendingin fór fram í varðskipinu Þór og létu sigmenn Landhelgisgæslunnar björgunarbox Mottumars síga niður í skipið.

Fulltrúar Krabbameinsfélagsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi auk fulltrúa nokkurra félagasamtaka Kiwanis, Lions, Rotary, Oddfellow og fleiri fengu heimboð í varðskipið Þór á Faxaflóa í dag.

Tilefnið var opnun Mottumars 2016 með afhendingu á björgunarboxi Krabbameinsfélagsins og Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi til áhafna skipa SFS og félaga í klúbbum sem eru að stærstum hluta karlmenn. Afhendingin fór fram í varðskipinu Þór og létu sigmenn Landhelgisgæslunnar björgunarbox Mottumars síga niður í skipið. 

Skilaboð Mottumars 2016 eru að hvetja karlmenn til að vera vakandi fyrir einkennum krabbameins í blöðruhálskirtli. Kjörorð herferðarinnar í ár eru: „Ekki farast úr karlmennsku. Lærðu að þekkja einkennin. Það er ekkert mál.“

Skilaboðunum er ætlað að vekja karlmenn til umhugsunar um að huga vel að eigin heilsu, hlusta á líkamann og harka ekki allt af sér heldur leita aðstoðar láti einkenni á sér kræla.  

Blöðruhálskirtilskrabbamein er algengasta krabbameinið meðal karla. Ár hvert greinast að meðaltali um 200 karlar með meinið. Meðalaldur við greiningu er um 70 ár en karlmenn þurfa að vera vakandi fyrir einkennum frá 50 ára aldri, eða fyrr ef fjölskyldusaga er um krabbameinið.

Björgunarboxið inniheldur ný fræðslumyndbönd um einkenni, orsakir, greiningu og meðferð krabbameins í blöðruhálskirtli. Einnig fylgja stutt myndskeið þar sem þvagfæraskurðlæknar svara spurningum í stuttu máli. Að auki má finna í boxinu bæklinga og skilaboð til karla um almenn einkenni krabbameins og þær leiðir sem taldar eru geta komið í veg fyrir þriðja hvert krabbamein.

Á vefsíðunni mottumars.is eru upplýsingar um átakið og einnig er þar margvíslegt fræðsluefni um karla og krabbamein.  Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins veitir ráðgjöf í síma 800 4040 alla virka daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert