Útlendingastofnun braut lög

Upplýsingarnar sem um ræðir sneru að því að konan væri …
Upplýsingarnar sem um ræðir sneru að því að konan væri sögð ung og barnaleg og maður hennar óframfærinn. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Skráning Útlendingastofnunar á upplýsingum fengnum frá Landspítala um víetnamska konu og miðlun þeirra til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu braut í bága við lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Svo segir í úrskurði Persónuverndar

Thi Thuy Nguyen fékk dvalarleyfi á Íslandi í október síðastliðnum en Útlend­inga­stofn­un hafði áður synjað henni um leyfið á þeim grundvelli að talið væri að hjóna­band henn­ar og eig­in­manns henn­ar, Van Hao Do, væri aðeins til mála­mynda.

Frétt mbl.is: Staðráðin í að leita réttar síns

Í gögn­um máls þeirra hjá Útlend­inga­stofn­un kom fram að upp­lýs­ing­ar hefðu borist í sím­tali frá Land­spít­al­an­um um hátta­lag hjón­anna. Þau kærðu málið til Persónuverndar með fyrrnefndum árangri og samkvæmt Fréttablaðinu hefur málið nú verið kært til lögreglu.

Í bréfi Útlendingastofnunar til Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eru upplýsingar úr símtali af Landspítala um að Thi Thuy væri „ung og barnaleg og maður hennar óframfærinn“ sagðar gefa vísbendingu um að hjúskapurinn sé hugsanlega til málamynda.

Starfar ekki lengur á spítalanum

Í gögnum málsins kom fram að samkvæmt skráningu Útlendingastofnunar var þrisvar hringt frá Landspítala til að spyrja um stöðu dvalarleyfisumsóknar kvartanda. Samkvæmt dagbókarfærslu hjá stofnuninni hafi umbeðnar upplýsingar verið veittar.

Landspítalinn segir þessar upplýsingar sem Útlendingastofnun veitti lögreglu hins vegar hvergi að finna í gögnum hans. Hafi miðlun upplýsinganna átt sér stað hafi því hvorki verið um rafræna né handvirka vinnslu persónuupplýsinga að ræða en málið hafi verið skoðað gaumgæfilega innan spítalans og ekkert bendi til þess að ólögmæt miðlun hafi átt sér stað.

Segir spítalinn, samkvæmt úrskurði Persónuverndar að sá starfsmaður spítalans, félagsráðgjafi sem skráður er sem fyrir símtalinu og þar með athugasemdunum í dagbókarfærslu Útlendingastofnunar, starfi ekki lengur á spítalanum. Þess utan hafi starfsmaðurinn þrætt fyrir að hafa miðlað umræddum upplýsingum og könnun spítalans á málinu hafi ekki leitt neitt í ljós sem haggaði þeim andmælum.

Útlendingastofnun mótmælti því að um viðkvæmar upplýsingar væri að ræða. Því er Persónuvernd ósammála.

„Líta verður svo á að þær upplýsingar, sem Útlendingastofnun aflaði frá viðkomandi félagsráðgjafa á Landspítalanum, hafi falið í sér staðfestingu á að kvartandi hafi leitað til spítalans til að fá þar heilbrigðisþjónustu, en af því leiðir að upplýsingarnar lutu að heilsuhögum. Voru upplýsingarnar því viðkvæmar,“ segir í niðurstöðu Persónuverndar.

„Í löggjöf er lögð á það rík áhersla að fólk, sem leitar til heilbrigðiskerfisins, geti treyst því að það njóti trúnaðar um allt sem viðkemur þeirri þjónustu sem þar er veitt (...) Þegar litið er til þessarar megináherslu réttarins um upplýsingar í heilbrigðiskerfinu telur Persónuvernd ljóst að umrædd skráning Útlendingastofnunar á upplýsingum um kvartanda hafi ekki samrýmst ákvæðum 7. gr. laga nr. 77/2000, sbr. einkum ákvæði 1. tölul. 1. mgr. þeirrar greinar um sanngirni við vinnslu persónuupplýsinga. Þegar af þeirri ástæðu fór skráning upplýsinganna í bága við lögin, sem og öll síðari vinnsla þeirra, þ. á m. miðlun þeirra til lögreglu.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert