Skammhlaup hafi valdið útleysingu

Eftir ítarlega skoðun á Sauðárkrókslínu 1 hafa engin ummerki fundist …
Eftir ítarlega skoðun á Sauðárkrókslínu 1 hafa engin ummerki fundist um bilunina og er nú talið að skammhlaup til jarðar hafi valdið útleysingu en orsökin er óþekkt. mynd/Landsnet

Truflanagreining hjá Landsneti hefur leitt í ljós að straumleysið á Sauðárkróki og í nærsveitum á þriðjudag í síðustu viku varð vegna skammhlaups til jarðar í háspennulínunni milli Varmahlíðar og Sauðárkróks. Ekki hefur verið hægt að staðsetja bilunina nánar enda hafa engin ummerki um hana fundist.

Þetta kemur fram á vef Landsnets

Þar segir ennfremur, að klukkan 12:38 þann 23. ferbrúar sl. hafi straumur farið af Sauðárkrókslínu 1 og orsakað straumleysi í Skagafirðinum sem varð mislangt eftir svæðum. Erfiðlega gékk að koma rafmagni aftur á Sauðárkrók þar sem bilun kom upp í öðrum af tveimur 66 kV aflrofum í tengivirkinu á staðnum, en viðgerð á rofanum var lokið um kl. 16:45 og var flutningskerfið þá komið aftur í eðlilegan rekstur.

Þá segir, að eftir ítarlega skoðun á Sauðárkrókslínu 1, sem sé 66 kV loftlína milli Varmahlíðar og Sauðárkróks, hafi engin ummerki fundist um bilunina og sé nú talið að skammhlaup til jarðar (jarðstraumur) hafi valdið útleysingu en orsökin sé óþekkt. Áfram verður unnið að könnun á frumorsök bilunarinnar og til öryggis verður einnig farið yfir ástand hins aflsrofans í spennistöð Rarik á Sauðárkróki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert