Holur farnar að skemma bíla

Tilkynningar um skemmdir á bílum sem hafa verið keyrðir ofan í holur eru farnar að berast en líkt og í fyrra hafa þær látið mikið á sjá eftir veturinn. Á Hverfisgötu braut maður pönnu á bíl sínum eftir að hafa keyrt í holu að sögn Runólfs Ólafssonar, framkvæmdastjóra FÍB.

Þá er langur kafli á Tunguhálsi þar sem vegurinn hefur breyst í malarveg en hann var fræstur í haust án þess að meira hafi verið gert. Vegfarandi sem á reglulega leið þar um vegna vinnu segir að hann hafi oft lent í því að skemma farm vegna ástands vegarins. Hann hafi ítrekað bent borginni á stöðu mála án þess að nokkuð hafi verið að gert.

Vegagerðinni sem er stærsti veghaldari á Höfuðborgarsvæðinu bárust um 200 tilkynningar vegna slíkra skemmda síðasta vetur og nánast enginn fékk tjón sitt bætt þar sem lögin gera ráð fyrir að veghaldari þurfi að vita af holunum til þess að hann sé bótaskyldur.

Runólfur segir ábyrgð veghaldara veikari hér á landi en í löndum sem við berum okkur gjarnan saman við og því hefur Félag íslenskra bifreiðaeigenda látið hanna fyrir sig app þar sem ökumenn geta sent inn myndir af holum ásamt staðsetningu og verður þá haldið utan um þær tilkynningar sem sendar eru til veghaldara.

mbl.is kíkti á færð á vegum í höfuðborginni í gær.

Málið er einnig skoðað í Morgunblaðinu í dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert