„Manni er gjörsamlega misboðið“

Katrín Pétursdóttir og Rannveig Rist við störf við að lesta …
Katrín Pétursdóttir og Rannveig Rist við störf við að lesta flutningaskipið fyrr í vikunni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

„Fyrir það fyrsta fluttum við, þetta frábæra fólk sem lagði sig fram við að bjarga hagsmunum og viðskiptasamböndum fyrirtækisins, 3470 tonnum af áli um borð í skipið sem tekur að hámarki 3700 tonn. Það ætti ekki að gera lítið úr því. Í öðru lagi, það sem við erum ráðin til að gera, allt þetta fólk sem þarna stóð og vann vinnu annarra, er að gæta og vernda hagsmuni þessa fyrirtækisins.“

Þetta segir Katrín Pétursdóttir, forstjóri Lýsis og stjórnarmaður í Rio Tinto Alcan á Íslandi, í samtali við mbl.is vegna ummæla Gylfa Ingvarssonar, talsmanns starfsmanna fyrirtækisins, við mbl.is þar sem hann kallaði stjórnendur fyrirtækisins „slakasta löndunargengi í Evrópu“ í samtali við fréttavefinn í dag. Sagði hann þá hafa afkastað jafnmiklu á einum degi og „alvörugengi“ hefði gert á klukkutíma. Nefndi hann sérstaklega Katrínu í því sambandi og Rannveigu Rist, forstjóra Rio Tinto Alcan á Íslandi.

„Síðan veltir maður því fyrir sér líka hvers vegna við Rannveig erum teknar fyrir á þennan hátt og gert lítið úr okkur, laun okkar birt og bifreiðategundir. Er það vegna þess að við erum konur? Ég hlýt að spyrja verkalýðsforkólfana hvort það sé ástæðan fyrir því að við höfum verið teknar út fyrir sviga í þessum efnum? Er þarna hugsanlega á ferðinni einhvers konar mismunun? Hefði verið talað svona um okkur ef við værum karlar? Ég get ekki annað en velt þessu fyrir mér. Af einhverjum ástæðum eru það við sem fáum yfir okkur súpuna,“ segir hún.

Katrín bendir á að stjórnendur fyrirtækisins séu einfaldlega að reyna að bjarga verðmætum og bjarga því sem bjargað verði sem þeim sé skylt að gera samkvæmt lögum í ljósi þeirra aðstæðna sem fyrir hendi séu. „Það eru 11 starfsmenn sem setja á þetta verkfall og standa í vegi fyrir launahækkunum allra hinna starfsmannanna í félaginu.“

Líkurnar á því að álverið í Straumsvík verði áfram starfandi hér á landi fari ört minnkandi eftir því sem kjaradeilan dregst á langinn. Markmið stjórnenda fyrirtækisins sé að reyna að verja hagsmuni þess og starfsmanna þess. Hún minnir á að 400-450 manns starfi hjá Rio Tinto Alcan á Íslandi og með afleiddum störfum sé um að ræða um 2.000 manns. Sú spurning vakni einnig hvort markmiðið sé hreinlega að hrekja fyrirtækið úr landi. „Manni er bara gjörsamlega misboðið með þessum aðgerðum. Maður skilur ekki hvað mönnum gengur til.“

Katrín Pétursdóttir, stjórnarmaður í Rio Tinto Alcan á Íslandi.
Katrín Pétursdóttir, stjórnarmaður í Rio Tinto Alcan á Íslandi. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert