Mega kynna sig á skólatíma

Börn í Breiðholtsskóla með sólmyrkvagleraugu sem Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness gaf. Það …
Börn í Breiðholtsskóla með sólmyrkvagleraugu sem Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness gaf. Það þurfti að gefa skólunum gleraugun frekar en börnunum beint vegna reglna Reykjavíkurborgar. mbl.is/Júlíus

Greitt er fyrir kynningum á æskulýðs-, íþrótta- og tómstundastarfi fyrir börn og unglinga sem hluta af námi þeirra í nýjum reglum um auglýsingar og gjafir í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar, að því er kemur fram í tilkynningu frá borginni. Kynningar verða heimilar á skólatíma.

Borgarráð samþykkti í gær nýjar reglur um kynningar, auglýsingar og gjafir í skóla- og frístundastarfi, en starfshópur hefur síðastliðið ár unnið að endurskoðun þeirra. Við endurskoðunina var fylgt leiðbeinandi reglum umboðsmanns barna og talsmanns neytenda um að vernda eigi börn fyrir auglýsingum og annarri markaðssókn í grunnskólum og leikskólum. Jafnframt fá stjórnendur, skólaráð og foreldrar aukið svigrúm til að móta áherslur um móttöku gjafa utan skólatíma sem tengjast fræðslu og forvörnum, að því er segir í tilkynningunni.

Í nýjum reglum er greitt fyrir kynningum á æskulýðs-, íþrótta- og tómstundastarfi fyrir börn og unglinga sem hluta af námi þeirra. Slíkar kynningar eru heimilar á starfstíma skóla- og frístundar og kveðið á um að fyrirkomulag þeirra skuli ákveðið í samstarfi stjórnenda, foreldra og nemenda við hverfisráð, íþróttafélög og félagasamtök í viðkomandi hverfi. Upplýsingum um tímasetningar og kostnað vegna slíkra tilboða skal beina til foreldra en ekki barna og ungmenna.

Einnig eru aðgreindar reglur um gjafir til starfsstaða annars vegar og gjafir til barna til einkaeignar, hins vegar. Hvað varðar gjafir til starfsstaða þá er meginviðbótin sú að þiggja má gjafir hafi þær fræðslu- eða forvarnargildi, með því skilyrði að börn, starfsstaðir eða gjafir séu ekki merkt kostunaraðila. Dreifing á gjöfum til barna til einkaeignar er óheimil í skipulögðu skóla- og frístundastarfi, þar með talið vettvangsferðum. Stjórnendur geta þó sem fyrr lánað húsnæði til úthlutunar gjafa til barna utan skólatíma og kveðið er á um að slíkt geti verið í samstarfi við foreldrafélag, foreldraráð eða skólaráð.

Reglurnar taka gildi 15. apríl nk. 

Frétt á vef Reykjavíkurborgar um nýju reglurnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert