Tugir hvala í loðnuveislu

Ferðamennirnir fengu eitthvað fyrir sinn snúð á Valahnúkum við Reykjanesvita.
Ferðamennirnir fengu eitthvað fyrir sinn snúð á Valahnúkum við Reykjanesvita. Mynd/Árni Tryggvason

Árni Tryggvason, leiðsögumaður og ljósmyndari, varð vitni að miklu sjónarspili í gær þar sem hann var staddur með hóp ferðamanna á Valahnúkum við Reykjanesvita.

Sjórinn var þakinn af súlu sem sýndi sínar glæsilegustu dýfingarkúnstir. Tugir hvala byltu sér á milli þeirra og tóku þátt í sannkallaðri loðnuveislu.

„Þetta var bara ótrúlegt. Það var frábært að sjá þetta frá landi, svona tvö til þrjú hundruð metra í burtu,“ segir Árni, sem hefur ekki áður orðið vitni að slíku sjónarspili á þessum stað.  

Skömmu áður hafði hann rætt við ferðamennina um Eldey og súlukastið þar í kring. „Ég var að tala um hvað það væri stórkostlegt að sjá súluna stinga sér og var að lýsa þessum fugli fyrir þeim. Svo komu þær þarna, við fórum að fylgjast með og hvalirnir komu líka. Fólk var frá sér numið af hrifningu,“ segir hann og telur að annað hvort hafi þarna verið hrefna  eða hnúfubakur á ferðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert