Leiddi Zlatan inn á völlinn

Gunni er 7 ára og býr í Párís ásamt fjölskyldu …
Gunni er 7 ára og býr í Párís ásamt fjölskyldu sinni.

Gunnar Róbertsson er 7 ára strákur sem býr í París. Hann æfir fótbolta meðan pabbi hans, Róbert Gunnarsson, spilar handbolta með stórliði PSG. Gunnar leiddi á dögunum knattspyrnugoðið Zlatan Ibrahimovic inn á leikvanginn í París. Barnablaðið sló á þráðinn til Frakklands og átti gott spjall við Gunna.

Ertu búinn að búa lengi í Frakklandi?
Já, í fjögur ár.

Af hverju býrðu í Frakklandi?
Af því að pabbi er að spila hér handbolta með Parísarliðinu.

Er ekkert erfitt að tala frönsku?
Nei, ekki fyrir mig allavega. Ég tala bestu frönskuna í fjölskyldunni. Ég er líka búinn að eignast nokkra vini hérna úti.

Kemurðu oft til Íslands?
Já, við komum oftast um jólin og þegar við erum í sumarfríi.

Hvað heita foreldrar þínir?
Róbert Gunnarsson og Svala Sigurðardóttir. Ég á líka þrjár systur sem heita Birta, Hulda og Katla.

Hefur þú búið í mörgum löndum?
Þýskalandi, Íslandi, Frakklandi og bráðum Danmörku en við erum að flytja þangað í sumar.

Kanntu mörg tungumál?
Frönsku, íslensku og smá ensku. Við tölum alltaf íslensku hérna á heimilinu.

Ertu að æfa einhverjar íþróttir?
Já, ég æfi fótbolta hérna í Frakklandi með liði sem heitir Enfants de Passy. Ég er búinn að æfa í þrjú ár með þeim.

Æfið þið oft í viku?
Æfum einu sinni í viku og keppum einu sinni í viku. Svo æfi ég með KR á sumrin þegar við erum á Íslandi.

Hver er helsti munurinn á Frakklandi og Íslandi?
Það er miklu heitara í Frakklandi og miklu fleiri sem búa hérna. Mér finnst skemmtilegra á Íslandi.

Þú tókst þátt í því á dögunum að leiða leikmenn PSG inn á völlinn?
Já, það var fótboltaleikur sem PSG (Paris Saint-Germain) var að spila á heimavelli gegn Troyes. Það var mjög skemmtilegt.

Og voru það æfingafélagar þínir úr fótboltanum sem voru í þessu?
Nei, ekkert endilega. Bara allskonar strákar og líka stelpur.

En hvernig stóð á því að þú fékkst að leiða sjálfan Zlatan?
Ég veit það ekki, það var bara raðað niður og ég var mjög heppinn að fá hann.

Er hann uppáhaldsleikmaðurinn þinn hjá PSG?
Já og fleiri: Verratti, Silva og Luiz.

Farið þið oft á fótboltaleiki?
Já, við förum stundum, ég fer líka oft á handboltaleiki þegar pabbi er að spila.

Hvernig var að leiða Zlatan, náðir þú eitthvað að spjalla við hann?
Það var mjög gaman, ég sagði honum að ég þekkti son hans. Við æfðum saman tennis.

Með hvaða liði heldur þú annars í fótbolta?
Ég held með Liverpool.

En í handbolta?
Auðvitað með pabba og liðinu hans, PSG, hérna í París.

Hlakkar þú til að flytja til Danmerkur?
Já, það verður skemmtilegt. Við verðum þar allavega í tvö ár. Það er reyndar leiðinlegt að flytja, þegar maður þarf kannski að sofa á dýnu á gólfinu á meðan á því stendur. En svo lagast það nú.

Áttu þér einhvern uppáhaldsfótboltamann?
Já, Steven Gerrard.

Nú fer EM í fótbolta fram í Frakklandi í sumar. Muntu fylgjast eitthvað með því?
Já, ég fer á einn leik þegar Ísland mætir Austurríki. Hann fer fram á afmælisdaginn minn 22. júní. Ætli ég fái ekki miða í afmælisgjöf. Ég hlakka svakalega mikið til.

Hvernig er það þegar maður býr í Frakklandi, fær maður þá páskaegg?
Já, auðvitað. Mamma reddar því.

Áttu þér einhver fleiri áhugamál en fótbolta?
Ég er að æfa hiphop og mér finnst líka skemmtilegt að spila tölvuleiki.

Hvað ætlar þú að verða þegar þú verður stór?
Atvinnumaður í fótbolta.

Í blaði helgarinnar ræðum við við hann Gunna sem býr í París. Hann hitti knattspyrnuhetjuna Zlatan Ibrahimovic og leiddi hann inn á völlinn þegar PSG mætti Troyes á heimavelli.

Posted by Barnablaðið on 4. mars 2016
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert