14.303 ferðamenn komið á bráðamóttöku

Komur erlendra ferðamanna á bráðamóttöku LSH á árunum 2001 til …
Komur erlendra ferðamanna á bráðamóttöku LSH á árunum 2001 til 2014. Úr rannsókn Guðbjargar Pálsdóttur

Álag í heilbrigðisþjónustu hefur aukist samhliða fjölgun ferðamanna á Íslandi. Þetta kom fram í máli ræðumanna á Bráðadeginum sem haldinn var á föstudag

Helga Þórey Friðriksdóttir og Dagný Lóa Sighvatsdóttir fjölluðu á ráðstefnunni um hjúkrunarþarfir og úrræði erlendra ferðamanna á bráðamóttöku Landspítalans og kynntu niðurstöður rannsóknar sinnar.

Dagný sagði fjölda ferðamanna á Íslandi hafa tvöfaldast síðan árið 2010. Áætla megi að samhliða því hafi álag á heilbrigðisstofnanir aukist. Hins vegar skorti rannsóknir á komum erlendra ferðamanna á bráðamóttöku, hjúkrunarþörfum þeirra og úrræðum sem þeim eru valin.

758 ferðamenn á tæpum þremur mánuðum

Rannsókn Helgu og Dagnýjar spannaði tímabilið 21. maí til 31. ágúst árið 2014, en þá um sumarið var ákveðið að bæta við skráningarferli fyrir þá erlendu ferðamenn sem leita á bráðamóttöku Landspítalans. Það ár komu tæplega milljón ferðamenn til landsins, en á rannsóknartímabilinu komu 758 ferðamenn á bráðamóttökuna.

„Rannsókn okkar sýndi að ef tungumálaörðugleikar koma upp þá kemur það oft í hlut hjúkrunarfræðings að ráða fram úr þeim,“ sagði Dagný.

Benti hún í kjölfarið á að rannsóknir, sem gerðar hafa verið í Bandaríkjunum, hafi sýnt fram á að sjúklingar sem ekki tala ensku séu líklegri til að fá lakari þjónustu. Þá séu þeir líklegri til að gangast undir óþarfa rannsóknir og hljóta skaða af meðferðinni sjálfri.

Þær niðurstöður er líklega hægt að heimfæra að einhverju leyti á heilbrigðiskerfið hér á landi.

Helga Þórey Friðriksdóttir og Dagný Lóa Sighvatsdóttir kynna niðurstöður sínar.
Helga Þórey Friðriksdóttir og Dagný Lóa Sighvatsdóttir kynna niðurstöður sínar. mbl.is/Golli

Markmiðið að bæta verklag við forvarnir

Guðbjörg Pálsdóttir, sérfræðingur í bráðahjúkrun, fjallaði um komur erlendra ferðamanna á bráðamóttöku Landspítalans á árunum 2001-2014.

Í máli hennar kom fram að erlendum ferðamönnum á Íslandi hefur fjölgað meira en þrefalt frá árinu 2001. Sagði hún að á sama tímabili mætti sjá mikla aukningu í hópi þeirra ferðamanna sem leita á bráðamóttökuna.

Markmið rannsóknar Guðbjargar, sem er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, var að bæta verklag við forvarnir og sértæka heilbrigðisþjónustu ferðamanna, þar sem rannsóknir erlendis hafi gefið vísbendingar um að viðbrögð á ferðamannastöðum geti haft langtímaáhrif á ferðamenn sem lenda í slysum.

Komur erlendra ferðamanna greindar eftir kyni.
Komur erlendra ferðamanna greindar eftir kyni. Úr rannsókn Guðbjargar Pálsdóttur

Vísbendingar um helstu álagstíma

Samtals voru skráðar 14.303 komur ferðamanna á bráðamóttöku á tímabilinu 2001-2014, en á þann hátt flokkast þeir sem ekki hafa íslenska kennitölu og hafa sömuleiðis erlent heimilisfang.

Algengast var að ferðamenn kæmu á bráðamóttökuna á þriðjudögum og laugardögum en mest er álagið jafnan í júlí og ágúst.

Guðbjörg segir niðurstöður rannsóknarinnar geta gefið vísbendingu um helstu álagstíma í heilbrigðisþjónustu tengda erlendum ferðamönnum. Þá segir hún að bæta þurfi verulega skráningu veittrar heilbrigðisþjónustu til erlendra ferðamanna.

Möguleiki sé á að nýta niðurstöðurnar við þróun viðeigandi þjónustu út frá þörfum erlendra ferðamanna og þá sé hægt að skipuleggja markvissar forvarnir út frá greiningu á aðstæðum slysa og veikinda.

Fjölmennt var á ráðstefnunni, sem haldin var í salarkynnum Hótel …
Fjölmennt var á ráðstefnunni, sem haldin var í salarkynnum Hótel Natura.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert