Rústum ferðaþjónustu líkt og síldinni

Lögregla og Umhverfisstofnun lokuðu leiðinni en auðvelt er að hunsa …
Lögregla og Umhverfisstofnun lokuðu leiðinni en auðvelt er að hunsa hana. Ljósmyndir/Hermann Valsson

Á meðfylgjandi myndum má sjá hvar tugir ferðamanna virtu að vettugi lokanir göngustígs að Gullfossi í gær og gengu þannig ísilagða leiðina sem lá að fossinum. Leiðinni var lokað fyrr í vetur af lögreglu og Umhverfisstofnun en hefur að engu verið virt, að sögn Hermanns Valssonar leiðsögumanns.

Hann er ómyrkur í máli þegar hann ræðir ástand íslenskrar ferðaþjónustu í samtali við mbl.is.

„Við þurfum að skýra aðgengi að vörunni. Og við erum ekki að gera það. Það er algjört óreiðuóstand við Gullfoss og það er algjört óreiðuástand við Geysi,“ segir Hermann, en hann hefur skrifað opið bréf til Umhverfisstofnunar þar sem hann mótmælir ástandinu harðlega.

Ferðamenn gengu margir alla leið að fossinum en hún var …
Ferðamenn gengu margir alla leið að fossinum en hún var ísilögð.

Vorgotssíldin ekki lengur til

„Á endanum er niðurstaðan alltaf þessi: Við erum að skaða atvinnugreinina. Þetta er nákvæmlega líkt og með vorgotssíldina sem við ofveiddum á sjöunda áratug síðustu aldar. Það er mjög gott að nota þessa skírskotun í sjávarútveginn því það er atvinnugrein sem við þekkjum.

Við rústuðum vorgotssíldinni og hún er ekki til lengur sem stofn. Á henni byggðist heil atvinnugrein en vegna græðgi og doða þá er það bara búið.“

Ferðamenn virtust láta viðvaranir sem vind um eyru þjóta.
Ferðamenn virtust láta viðvaranir sem vind um eyru þjóta.

Bara einn pottur af mjólk

„Ef við pössum ekki upp á ferðamennina, að þeir fái það sem þeim hefur verið selt, öryggi, aðgengi og þjónustu, þá erum við að rústa ferðaþjónustunni rétt eins og við rústuðum vorgotssíldinni. Þetta er ekkert flókið.

Ef ég sel þér pott af mjólk og mjólkin reynist vera súr þá er það bara einn pottur af mjólk og búið. Það sem er svo grátlegt við þetta er að við höfum séð fjölmörg dæmi erlendis um hrun ferðaþjónustu,“ segir Hermann og bætir við að sífellt fleiri slys á ferðamönnum muni valda því að færri munu velja sér Ísland sem áfangastað.

„Í þessu öllu felst gríðarlega þungur undirtónn og hann er afkoma þjóðarbúsins og arðsemi atvinnugreinarinnar, sem líða fyrir þetta sinnuleysi yfirvalda.“

Hált var á leiðinni líkt og sjá má á þessari …
Hált var á leiðinni líkt og sjá má á þessari mynd.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert