Segist ekki vera „puntudúkka“

Fulltrúi Framsóknarflokksins í stjórn Ríkisútvarpsins segist ekki vera „puntudúkka“ sem sitji í stjórninni til þess eins að þriggja stjórnarlaun upp á 80 þúsund krónur fyrir skatta. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórnarmanninum, Kristni Degi Gissurarsyni, þar sem hann vísar því á bug að hann hafi með óeðlilegum hætti gagnrýnt dagskrárstefnu Ríkisútvarpsins.

Tilefnið er gagnrýni Sigmars Guðmundssonar, útvarpsmanns á Rás 2, á ummæli sem Kristinn lét falla á Útvarpi Sögu um atriði hljómsveitarinnar Reykjavíkurdætra í þætti Gísla Marteins Baldurssonar í Ríkisútvarpinu. Kristinn sagði í viðtalinu að það væri með eindæmum að svona efni skyldi vera sýnt í fjölskylduþætti í ríkisfjölmiðlinum og sagðist hann ætla að kalla eftir viðbrögðum útvarpsstjóra á stjórnarfundi vegna málsins.

Sigmar sagði á Facebook-síðu sinni að óþolandi og ólíðandi væri að stjórnarmaður í Ríkisútvarpinu tjáði sig með þessum hætti og sakaði hann um lítt duldar hótanir. „Skilaboðin eru þessi: Ef dagskráin er ekki rétt þá má reka útvarpsstjórann. Ef fréttaflutningur er ekki réttur þá grípur fjárveitingarvaldið í taumana.“ Sagði hann Kristin ekki átta sig á því að stjórn Ríkisútvarpsins ætti ekki að skipta sér af dagskrá miðilsins.

Kristinn sakar Sigmar og aðra fjölmiðlamenn sem hafa gagnrýnt hann um að ata sig auri og vera með dylgjur og illmælgi í hans garð. Segir hann það undrunarefni og segi meira um þá en hann. Segist hann hafa rætt málið á hófstilltan hátt í Útvarpi Sögu. Þá leggur hann áherslu á að honum beri sem stjórnarmanni Ríkisútvarpsins að hafa hag þess að leiðarljósi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert