Hafa náð tökum á eldinum

Húsið að Grettisgötu 87 brann í kvöld.
Húsið að Grettisgötu 87 brann í kvöld. mbl.is/Júlíus

Nokkuð er síðan slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu náði tökum á eldinum við Grettisgötu í Reykjavík. Er nú unnið að því að endurskipuleggja vettvanginn. Þetta segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins í samtali við mbl.is.

Jón Viðar segir að slökkvistarfið nú í því sem kalla má seinni fasa, þ.e. unnið er að því að rífa niður hluta byggingarinnar. Segir hann líklegt að reykjarkóf komi til með að gjósa upp af og til í nótt, en eldurinn blossaði margsinnis upp þegar slökkviliðsmenn hrófluðu við haugum og öðru í húsinu.

Að sögn Jóns Viðars varð mikið hrun inni í húsinu vegna eldsins og verða slökkviliðsmenn því að störfum fram eftir morgni.

20 sentímetra vatnspollur í bílakjallaranum

Umtalsverðar skemmdir urðu á húsinu öllu vegna reyks og sóts, en brunaskemmdir eru mestar í vesturenda hússins. Jón Viðar segir húsið þó einnig töluvert skemmt í austurhlutanum. Í kjallara hússins er að finna bílakjallara og hafði slökkviliðið nýlega skoðað þar aðstæður þegar mbl.is náði tali af Jóni Viðari. Segir hann þar um 20 sentímetra djúpt vatn hafa blasað við slökkviliðsmönnum.

„Ef það verður niðurstaðan, þegar menn fara að skoða þetta betur, þá er það ágætlega vel sloppið,“ segir Jón Viðar. Spurður hvort mikið hafi verið af bílum og öðrum verðmætum inni í kjallaranum svarar Jón Viðar því til að slökkviliðið sé ekki búið að athuga með slíkt vegna öryggisaðstæðna.

Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri.
Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert