Íbúar halda til í strætisvagni

Viðar Þorgeirsson, íbúi á Snorrabraut 35a, hefur litlar áhyggjur af …
Viðar Þorgeirsson, íbúi á Snorrabraut 35a, hefur litlar áhyggjur af ketti sínum sem er sofandi í íbúðinni, rólegur að eðlisfari. Ljósmynd/Friðrik Boði Ólafsson

Eldsvoðinn í Grettisgötu hefur óneitanlega sett daglegt líf íbúa í nágrenninu úr skorðum. Einhverjir hafa flúið heimili sín og ætla að gista hjá vinum og vandamönnum í nótt. Aðrir hafa lagt það á sig að bíða og sjá hvort þeim sé óhætt að gista heima hjá sér í nótt.

Einn þeirra sem ákveðið hefur að bíða og sjá er Viðar Þorgeirsson, íbúi á Snorrabraut 35a. Hann hefur í kvöld haft aðsetur í strætisvagni sem stendur á Snorrabraut líkt og aðrir íbúar í húsum í nágrenni við Grettisgötu 87. Blaðamaður Morgunblaðsins kannaði aðstæður á svæðinu í kvöld og náði tali af Viðari á tíunda tímanum.

Vill helst sofa heima hjá sér í nótt

„Ég fann mikla reykjalykt og hélt fyrst að það væri einhver þarna fyrir utan að reykja. Svo reyndist þetta vera miklu sterkara. Þá fór ég út á svalir og sá reykinn úr húsinu. Fór ég hinu megin við húsið og sá eldglæringar í miklum reyk,” segir Viðar og bætir við að hann hafi þá hringt í Neyðarlínuna.

Lokaði hann því næst öllum gluggum í íbúð sinni, þétti þá með tuskum og hækkaði í ofnunum til að mynda yfirþrýsting sem vinnur á móti því að mengað loft komist inn í íbúðina. Yfirgaf hann svo íbúðina.

„Kötturinn minn er inni sofandi. Hann er rólegur, æsir sig aldrei,” segir Viðar.

Hann segist hafa fengið að líta aðeins við í íbúðina síðar í kvöld, þá hafi engin vond lykt verið komin inn í íbúðina, og vonast hann til þess að hafa sloppið við slæma reykjalykt.

Vegna þess að engin lykt var komin, lagði Viðar það á sig að bíða og vita hvort hann fengi ekki að sofa heima í nótt, en segist þó geta sofið annars staðar ef því er að skipta.

„Ég vil bíða.”

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert