Veginum um Hvalnesskriður lokað

Það er víða illfært. Myndin er úr safni.
Það er víða illfært. Myndin er úr safni. mbl.is/Styrmir Kári

Veðurfræðingur Vegagerðarinnar segir að hríðinni sloti á fjallvegum suðvestanlands um klukkan 20 í kvöld, á hann þar meðal annars við veginn um Hellisheiði og Þrengslin. Þá verður veginum um Hvalnesskriður lokað í kvöld.

Fram kemur í tilkynningu Vegagerðarinnar að undir Hafnarfjalli verði vindhviður 30-40 m/s fram á kvöld. Þá verður einnig mjög hvasst á Kjalarnesi. Reiknað er með snjókomu og síðar slyddu suðaustanlands austur á Austfirði. Þar eru horfur á talsverðri ofanhríð til fjalla allt til morguns.

Vegurinn um Hvalnes- og Þvottáskriður verður lokað í kvöld, mánudag, klukkan 22 vegna snjóflóða- og skriðuhættu. Lokað verður í nótt og skoðað með opnun í fyrramálið.

Mikill skafrenningur er á Sandskeiði og Hellisheiði og þar er þæfingsfærð. Hálkublettir eru í Þrengslum. Þungfært og skafrenningur er á Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði. Annars er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum vegum á Suðurlandi, þó síst á hringveginum.

Óveður er á Reykjanesbraut og Kjalarnesi en vegur er hálkulaus.

Hálka eða hálkublettir eru víða á Vesturlandi. Lokað á Fróðárheiði.

Á Vestfjörðum er hálka eða hálkublettir á flestum leiðum og eitthvað um snjóþekju. Ófært er á Hálfdáni en þungfært og stórhríð á Kleifaheiði og þæfingsfærð og stórhríð á Mikladal.

Á Norðurlandi vestra eru hálkublettir. Meiri hálka er hins vegar á Norðurlandi eystra.

Nokkur hálka eða hálkublettir eru á vegum á Austurlandi, suður undir Höfn.

Á Suðausturlandi er autt frá Höfn að Öræfum en þaðan er snjóþekja og éljagangur að Vík en hálkublettir og éljagangur vestur fyrir Vík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert