41% orðið fyrir kynferðislegri áreitni

Drífa Snædal á fundinum í hádeginu.
Drífa Snædal á fundinum í hádeginu. Mynd/BSRB

Um 41% fólks sem hefur unnið í þjónustustörfum síðustu 10 ár á Íslandi hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni í starfi. Þetta kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem Starfsgreinasambandið gerði í samstarfi við rannsóknarstofu í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands á síðasta ári.

Konur verða hlutfallslega oftar fyrir kynferðislegri áreitni heldur en karlar, en um það bil önnur hver kona og fjórði hver karlmaður hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni samkvæmt rannsókninni. Af þeim sem hafa orðið fyrir áreitni voru 67,8% yngri en 24 ára þegar alvarlegasta atvikið átti sér stað.

Drífa Snædal, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambands Íslands, kynnti niðurstöður rannsóknarinnar á fundi um kynbundna- og kynferðislega áreitni á vinnustöðum sem Alþýðusamband Íslands, BHM, BSRB, Kennarasamband Íslands, Jafnréttisstofa og Jafnréttisráð efndu til í hádeginu á Grand Hótel.

Fundurinn var haldinn í tilefni alþjóðlegs baráttudags kvenna sem er í dag. 

Frá fundinum á Grand Hótel.
Frá fundinum á Grand Hótel. Mynd/BSRB

Aðeins konur nefndu yfirmenn sem gerendur

Algengasta starfsheiti þeirra sem urðu fyrir kynferðislegri áreitni var þjónn.

Í yfir 60% tilvika kynferðislegrar áreitni í rannsókninni var gerandi viðskiptavinur. Karlar verða frekar fyrir áreitni af hálfu viðskiptavina heldur en samstarfsmanna.

25,4% kvenna sögðu að gerandinn hafi verið yfirmaður en enginn karlmaður sem svaraði hafði upplifað kynferðislega áreitni af hálfu yfirmanns.

43% kvenna sögðu að áreitnin hafi mjög mikil áhrif á öryggistilfinningu þeirra á vinnustaðnum.

Mismunandi skilgreining kynja á fjárhagslegu sjálfstæði

Drífa Snædal fjallaði um kynbundið vald og vinnumarkaðinn í ræðu sinni. Hún sagði muninn á körlum og konum vera mjög félagslegan hvað varðar vinnumarkaðinn og að kynin skilgreindu fjárhagslegt sjálfstæði á misjafnan hátt. Þar vísaði hún í lokaritgerð sína við Háskóla Íslands þar sem konur sögðu að fjárhagslegt sjálfstæði fæli í sér að geta unnið fyrir sér og börnunum sínum, þ.e. að vera óháð fyrirvinnu. Karlar svöruðu því aftur á móti þannig að í fjárhagslegt sjálfstæði fæli í sér að vera eigin atvinnurekandi. „Þetta finnst mér kristallast svo rosalega vel í mismunandi stöðu og viðhorfum til kynjanna á vinnumarkaði,“ sagði Drífa.

Vantar fyrirmyndir fyrir konur

„Það vantar fyrirmyndir. Opinberi vettvangurinn er klassískt vettvangur karla og heimilin eru klassískt vettvangur kvenna og við erum ennþá að reyna að vinda ofan af þessu,“ bætti hún við og sagði íslenska vinnumarkaðinn einn af þeim kynskiptustu í heimi.

Í erindi hennar kom fram að Alþjóðaverkalýðshreyfingin vilji meina að um helmingur kvenna á vinnumarkaði í þróuðum ríkjum hafi orðið fyrir kynferðislegri áreitni. Evrópurannsóknir hafa einnig komist að sömu niðurstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert