„Allt sem ég og Rós áttum er farið“

Halldór Ragnarsson missti allt sitt í brunanum við Grettisgötu. Með …
Halldór Ragnarsson missti allt sitt í brunanum við Grettisgötu. Með honum á þessari mynd er Helga Lilja Magnúsdóttir. Mbl.is/ Eggert Jóhannesson

Myndlistarmaðurinn Halldór Örn Ragnarsson og kærasta hans Rós Kristjánsdóttir misstu aleiguna í brunanum við Grettisgötu í gær.

Ásamt því að um heimili þeirra hafi verið að ræða var vinnustofa Halldórs í húsnæðinu og segir hann að núna sé ljóst að hann hafi misst meirihlutann af verkum undanfarinna 2-3 ára til viðbótar við mikinn fjölda listaverka annarra samtímalistamanna sem hann hafði sankað að sér.

Þá er einnig glataður tölvubúnaður með gögnum í hárri upplausn af öllum verkum hans síðustu 15-16 árin.

„Allt sem ég og Rós áttum er farið

Halldór var sjálfur í sundi þegar eldurinn kom upp, en Rós var í húsnæðinu. Segir hann í færslu á Facebook að þau hafi misst allt utan fatnaðarins sem þau voru í.

„Þá er það vitað að allt er farið. Allt sem ég og Rós áttum er farið þar sem þetta var heimilið okkar einnig og í raun er það eina sem ég á núna er sundskýla og handklæði ásamt joggingbuxunum, bolnum og kuldaskónum sem ég fór í í sund í gærkvöldi.“

Erfiðast er samt að missa myndlistina og gögnin um fyrri verk hans. „Það tjón þykir mér erfiðast,“ segir Halldór.

„Það eina sem er til af mér sem myndlistarmanni í dag"

Í samtali við mbl.is segir Halldór að nú standi aðeins eftir afrit af gögnunum á heimasíðu hans Hragnarsson.com, en þar eru verkin þó í lélegri upplausn. „Nú er það það eina sem er til af mér sem myndlistarmanni í dag,“ segir Halldór, til viðbótar við þau verk sem hann hefur selt.

Húsnæðið er mikið skemmt eftir eldinn. Halldór segir líklegt að …
Húsnæðið er mikið skemmt eftir eldinn. Halldór segir líklegt að allt innandyra sé ónýtt. mbl.is/Eggert

Hringt var til Halldórs og sagt frá brunanum þegar hann var að koma upp úr sundi og hann hljóp strax til, enda Sundhöllin nálægt. Sagðist hann hafa ætlað að reyna að bjarga einhverju en ekki einu sinni komist að hurðinni að íbúðinni vegna reyks.

Mikið um góða vini

Vettvangur brunans er nú lokaður þar sem málið er rannsakað sem lögreglumál. Segist hann ekki geta farið inn til að athuga hvort eitthvað sé í lagi. Hann telur þó ólíklegt að svo sé, enda hafi eldurinn verið gríðarlegur og ef hann hafi ekki eyðilagt öll verkin hafi vatnsflóðið, reykurinn og hitinn væntanlega séð um það.

Aðspurður hvort hann og Rós hafi í einhver hús að vernda segir Halldór að þau eigi mikið af góðum vinum og hann hafi varla undan því að svara í símann þar sem þeim sé boðin aðstoð. Þau séu núna hjá tengdapabba hans. Segir hann að dagurinn í dag muni að öllum líkindum fara að mestu leyti í að vera í áfalli.

Tekur 4-5 mánuði að byrja aftur sem myndlistarmaður

„Það er sjokkfaktor í dag, en svo er að halda áfram. Það eina sem maður getur gert er að halda áfram,“ segir Halldór. Það er þó ekki auðvelt fyrir hann þar sem bruninn hefur bæði áhrif á heimili hans sem og vinnuaðstöðu.

„Ég get ekki farið í vinnuna á morgun eins og venjulegt fólk, þarf að byrja allt upp á nýtt,“ segir hann og bætir við að hann verði líklega ekki virkur myndlistarmaður aftur fyrr en eftir 4-5 mánuði.

Frá vettvangi í nótt.
Frá vettvangi í nótt. mbl.is/Júlíus

Þannig segir hann að verkfæri fyrir hundruð þúsunda hafi glatast í eldinum, allt frá penslum upp í sög. Þetta þýði tekjutap næstu mánuði fyrir sig.

Með öllu ótryggð

Spurður um aðkomu trygginga að málinu segir Halldór að þau hafi verið fullkomlega ótryggð. Segist hann hafa hugsað þetta reglulega undanfarið hálft ár þar sem hann hafi verið farinn að sprengja aðstöðuna utan af sér.

Segir hann þetta svipað og þegar fólk hugsi að taka afrit af gögnunum sínum en ýti því svo alltaf til morgundagsins. Segist hann alltaf hafa verið á leiðinni að ganga frá tryggingum en aldrei hafi orðið af því. „En svo gerðist þetta,“ segir hann. Þetta er tilfinning sem ég hef ekki fundið fyrir áður. Voða tómlegt,“ segir Halldór að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert