Hæstiréttur féllst á nálgunarbann

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Hæstiréttur Íslands snéri í dag við dómi Héraðsdóms Suðurlands og dæmdi karlmann til að sæta nálgunarbanni í fjóra mánuði en hann beitti barnsmóður sína ítrekuðu líkamlegu ofbeldi og áreitti hana. Nálgunarbannið nær bæði til barnsmóður hans og tveggja barna þeirra. Lögreglustjórinn á Suðurlandi hafði áður ákveðið að maðurinn skyldi sæta 6 mánaða nálgunarbanni.

Manninum hafði í júní í fyrra verið gert að sæta öðru sinni nálgunarbanni en að beiðni barnsmóður hans var nálgunarbannið fellt úr gildi. Maðurinn ritaði undir yfirlýsingu í febrúar sl. um að hann skuldbyndi sig til að koma ekki á eða vera við heimili barnsmóður sinnar og jafnframt að veita henni ekki eftirför, heimsækja hana eða vera með öðru móti í sambandi við hana, svo sem með símtölum, smáskilaboðum, tölvupósti eða  öðrum hætti í sex vikur.

Jafnframt skuldbatt maðurinn sig til að fara í einu og öllu eftir tilmælum félagsmálayfirvalda um umgengni við börn sín tvö og barnsmóður sína eða koma skilaboðum áleiðis til hennar í gegnum börnin.

Eftir að maðurinn undirritaði yfirlýsinguna var hann fyrir utan heimili barnsmóður sinnar og hringdi marsinnis og sendi dóttur þeirra skilaboð. Taldi Hæstiréttur því að friðhelgi barnsmóður mannsins og barnanna yrði ekki vernduð með öðrum og vægari úrræðum en nálgunarbanni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert