Grunaður um alvarleg brot gegn sambýliskonu sinni

mbl.is/Ómar

Karlmaður sem er undir sterkum grun um að hafa svipt sambýliskonu sína frelsi sínu og beitt hana líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi til 30. mars nk. 

Þetta er niðurstaða Hæstaréttar sem hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur frá 2. mars sl. 

Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 7. febrúar sl., fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en frá 10. febrúar á grundvelli almannahagsmuna.

Málið barst til héraðssaksóknara frá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu hinn 29. febrúar sl. og er málið þar nú til meðferðar og bíður ákvörðunar um saksókn.

Fram kemur í greinargerð að það sé mat héraðssaksóknara að maðurinn sé undir sterkum grun um að hafa gerst sekur um nauðgun, frelsissviptingu, hótanir, líkamsárás og blygðunarsemisbrot gagnvart sambýliskonu sinni á heimili þeirra 5. febrúar sl. Mun ofbeldið hafa staðið yfir í rúmlega fjórar klukkustundir. Er maðurinn m.a. sakaður um að hafa hótað henni lífláti, tekið ljósmyndir af kynfærum gegn vilja hennar og þvingað hana til samræðis. Konan hlaut margvíslega áverka.

Maðurinn og faðir hans hafa reynt að hafa áhrif á framburð konunnar

Maðurinn neitar sök en skýringar hans á tilkomu áverka konunnar eru ótrúverðugar að mati saksóknara. Konan hefur gefið skýrslu hjá lögreglu um að maðurinn og faðir hans hafi ítrekað reynt að hafa áhrif á framburð hennar í málinu með því að setja sig í samband við hana eftir að málið hafi komið upp.

Fram kemur í úrskurði héraðsdóms, sem Hæstiréttur hefur staðfest, að fallist hafi verið á að maðurinn væri undir sterkum grun um að hafa svipt sambýliskonu sína frelsi sínu og beitt hana líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi.

Brotin sem maðurinn er undir sterkum grun um að hafa framið varða meira en 10 ára fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert