Hlupu frá fjölskyldum í útkall

Einn síðustu slökkviliðsmannanna á vettvangi í dag. Dæla þurfti vatni …
Einn síðustu slökkviliðsmannanna á vettvangi í dag. Dæla þurfti vatni úr kjallara hússins við Grettisgötu 87 frá slökkvistarfinu og lögnum sem rofnuðu. mbl.is/Eggert

Fleiri en sextíu slökkviliðsmenn svöruðu kalli um aukamannskap vegna eldsvoðans á Grettisgötu í gærkvöldi, þar á meðal menn á frívakt sem hlupu jafnvel út frá fjölskyldu til að bregðast við kallinu. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri höfuðborgarsvæðisins, segir framlag þeirra ómetanlegt.

Mikið annríki var hjá slökkviliði í gærkvöldi og nótt. Auk eldsvoðans í iðnaðarhúsnæði við Grettisgötu 87 voru tvö minni útköll dælubíla og hátt í þrjátíu sjúkraflutningar, þar af sjö bráðatilfelli, sem slökkviliðsmenn þurftu að sinna.

Jón Viðar segir að þegar eins stórt útkall og á Grettisgötu í gær eigi sér stað sé kallaður út aukamannskapur. Megnið af honum hafi farið á vettvang en lágmarksmannskap hafi verið haldið á slökkviliðsstöðvum borgarinnar. Á tímabili hafi þurft að taka menn af vettvangi eldsvoðans til þess að sinna öðrum verkefnum. Það hafi hins vegar ekki haft afgerandi áhrif á slökkvistarfið.

Slökkviliðið þurfi alltaf að vera viðbúið að fara í önnur útköll. Þess vegna sé tækjum og tólum lagt með það í huga að þau þurfi að flytja fljótt í burtu.

„Það sem gerði gæfumuninn í gær var að við fengum góða svörun við úthringingum. Yfir sextíu manns svöruðu sem gerði okkur kleift að vera með 88 manns í heildina. Ég er afskaplega þakklátur fyrir að menn á frívakt hafi jafnvel hlaupið út frá fjölskyldum til að bregðast við kallinu. Það er ómetanlegt,“ segir Jón Viðar.

Rannsókn og tjónsmat bíður

Starfi slökkviliðs á vettvangi eldsvoðans er lokið. Lögregla ákvað í samráði við slökkviliðið að láta vettvanginn kólna og leyfa hitanum í burðarvirkinu sjatna áður en menn hætta sér inn í húsið. Hætta er talin á að hrynji úr þaki þess. Verkfræðingar munu svo meta burðarþol byggingarinnar á morgun og hvort óhætt sé fyrir tæknideild lögreglu að hefja rannsókn sína á orsökum eldsins.

Tryggingamiðstöðin vátryggir fasteignina og hluta þess rekstrar sem þar er staðsettur að því er kemur fram í tilkynningu sem tryggingafyrirtækið sendi frá sér í dag. Tjónsmat er sagt á frumstigum og þess sé beðið að tjónaskoðunarmenn félagsins fái aðgang að vettvanginum.

„Að svo stöddu er of snemmt að gefa út áætlun um umfang tjónsins eða hvort hluti þess falli á endurtryggjendur félagsins,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert