Lokanirnar eru ekkert grín

Slökkviliðsstjóri brýnir fyrir fólki að virða lokanir lögreglu enda sé …
Slökkviliðsstjóri brýnir fyrir fólki að virða lokanir lögreglu enda sé þeim ætlað að tryggja vettvang, m.a. þannig að hægt sé að koma þangað bifreiðum og tækjum, mbl.is/Eggert

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri á höfuðborgarsvæðinu brýnir fyrir fólki að virða ekki að vettugi lokanir lögreglu en líkt og mbl.is greindi frá fyrr í dag prílaði fólk yfir gula borða sem lögregla strengdi í kringum vettvang eldvoðans á Grettisgötu í gærkvöldi til að ná betri myndum.

„Þetta vekur mann alltaf til umhugsunar. Lokanirnar eru til að tryggja öryggi þeirra sem eru á svæðinu, ekki síst íbúa, slökkviliðsmanna og annarra. Tryggja athafnasvæðið til þess að hægt sé að vinna á vettvangi og koma þangað tækjum og tólum,” segir Jón Viðar.

Hann rifjar upp Skeifubrunann þann 6. júlí 2014 í því sambandi, þegar slökkvilið átti í vandræðum með að komast á vettvang með tæki og tól vegna fólks á svæðinu sem hunsaði fyrirmæli frá lögreglu.

„Þarna er verið að hugsa um hag allra. Það er mikilvægt að fólk sé ekki að taka neina sénsa og virði lokanir,” segir Jón Viðar og veltir upp þeirri spurningu hvort að fólk átti sig hugsanlega ekki á því hvers vegna lögregla loki vettvangi fyrir almenningi.

Hann segir að þrátt fyrir að ekki hafi komið upp sami vandi og á sínum tíma í Skeifunni sé rétt að brýna það fyrir fólki að lokanirnar séu „ekkert grín“, þvert á móti sé þeim ætlað að tryggja vettvang.

Bíða eftir öruggri inngöngu í húsið

Slökkvilið afhenti lögreglu vettvanginn í morgun. Var haldinn fundur slökkviliðs og lögreglu þar sem farið var yfir öryggismál. Niðurstaða fundarins er að lögreglan myndi leita til sérfæðinga til þess að gæta fyllstu varúðar. Segir Jón Viðar að því sé nú beðið eftir mati sérfræðinga á öryggisástandi. Segir hann það fyrirséð að staðan verði endurmetin á morgun, þ.e. hvort óhætt sé að fara inn í húsið.

Bifreiðar eru á verkstæðinu sem brann og einnig í kjallara hússins. Farið verður í að huga að slíkum hlutum um leið og innkoma inn á svæðið telst örugg.

Jón Viðar segir að ekki séu forsendur til þess að meta tjónið sem varð á bifreiðum í bílakjallaranum. Tuttugu til þrjátíu sentímetra djúpur vatnspollur hafði myndast í kjallaranum þegar slökkviliðsmenn athuguðu svæðið í nótt og telur Jón Viðar að líklega hafi einhverjar reykskemmdir orðið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert