Ástand vega ekki lagað á einu ári

Holur finnast í götum um allt höfuðborgarsvæðið.
Holur finnast í götum um allt höfuðborgarsvæðið. mbl.is/Golli

Hreinn Haraldsson, forstjóri Vegagerðarinnar, segir að mörg ár þurfi til að ná upp sömu gæðum í vegakerfinu og voru fyrir hrun.

„Ástandið er orðið slæmt og það verður ekki lagað á einu ári,“ segir Hreinn. „Þetta var mjög slæmt á síðasta ári og veturinn þar áður var ekki síður erfiður heldur en þessi.“

Þarf stærri upphæðir

Vegagerðin fær árlega um 6 milljarða króna til viðhalds á vegum landsins en á síðasta ári fékk hún um 500 milljóna króna aukafjármagn frá ríkinu og fór það aðallega til vega hennar á höfuðborgarsvæðinu. „Það gerði heilmikið fyrir það ár á höfuðborgarsvæðinu en það þarf stærri upphæðir ef við erum að tala um að endurbyggja sumar af okkar götum. Það verður ekki gert nema á einhverjum árum en þetta er lágmarkstala til að halda í horfinu,“ segir Hreinn og tekur fram að Vegagerðin hafi haft mun minna fé til viðhalds vega á öllu landinu en áður var.

Starfsmenn Vegagerðarinnar fylla upp í holur.
Starfsmenn Vegagerðarinnar fylla upp í holur. mbl.is/Golli

Vegfarandinn er aðalmálið

Hann bætir við að það hafi komið upp í umræðunni undanfarið að sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu  og Vegagerðin starfi saman við lausn vandans. „Aðalmálið snýr að vegfarandanum sem keyrir um göturnar og veit ekki hvaða götur eru á ábyrgð Vegagerðarinnar og hverjar eru á herðum sveitarfélaganna. Það er ekki aðalmálið hver gerir við og hvar heldur erum við sammála um að það sé farsælast að menn fari yfir þetta í sameiningu. Annars vegar til að greina vandamálið og hins vegar til að gera áætlun og úrbætur,“ greinir hann frá og vonast til að samkomulag náist um næstu skref einhvern tímann á næstu dögum.

Munu fylla í verstu holurnar

Vegagerðin ber ábyrgð á um einum fjórða til einum fimmta hluta vegakerfisins á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin eiga meirihluta veganna í kílómetrum talið en Vegagerðin annast erfiðustu stofnleiðirnar, þar á meðal Miklubraut, Sæbraut, Reykjanesbraut og Kringlumýrarbraut.

Hreinn segir að starfsmenn Vegagerðarinnar fylgist vel með ástandi vega og reyni að grípa inni í jafnóðum þar sem holurnar eru verstar og fylla í þær. „En það er bara til skamms tíma þar sem verið er að bjarga málum. Núna er þíða framundan og þá er þetta fljótt að versna meira.“

Ljósmynd/Ása M. Ólafsdóttir

Þarf áætlun fyrir næstu sumur

Ráðist verður í lágmarksaðgerðir í vor og eftir það kemur í ljós hvernig brugðist verður við vandanum. „Meginmálið núna varðandi þetta samkomulag er að setjast yfir svæðið í heild og kortleggja ástandið. Það þarf að gera áætlun, ekki bara fyrir þetta sumar heldur næstu sumur, um hvað þurfi að gera til þess að þetta verði ekki svona á hverju vori.“

Frétt mbl.is: Holurnar farnar að skemma bíla 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert