Bátar heyrðu neyðarboð

TF-SIF á flugi.
TF-SIF á flugi. mbl.is/Árni Sæberg

Stjórnstöð Landhelgisgæslu Íslands bárust síðdegis tilkynningar frá skipum og bátum um að þau hefðu heyrt stafræn neyðarboð á metrabylgju. Voru skip þessi þá stödd annars vegar vestur af Sauðanesi og hins vegar norðaustur af Horni.

Hóf Landhelgisgæslan þá þegar eftirgrennslan sem leiddi til þeirrar niðurstöðu að einskis skips er saknað á norðanverðum Vestfjörðum og á Ströndum. Voru neyðarboðin auðkennalaus, þ.e. boðin eru ekki merkt neinu skipi.

„Til öryggis var flugvél Landhelgisgæslunnar, TF-SIF, beint á svæðið til frekari eftirgrennslan. Mestar líkur eru taldar á því að um kerfisvillu í fjarskiptabúnaði sé að ræða en Landhelgisgæslan vill leita af sér allan grun,“ segir í tilkynningu.

Uppfært: Neyðarboð líklega send fyrir villu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert