Ólafur hættir sem formaður

Ólafur G. Skúlason, formaður félags hjúkrunarfræðinga.
Ólafur G. Skúlason, formaður félags hjúkrunarfræðinga.

Ólafur G. Skúlason hefur ákveðið að láta af starfi formanns Félags hjúkrunarfræðinga. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef félagsins. Það gerir hann vegna starfs sem hann sótti um og fékk.

„Þegar ég ákvað að bjóða mig fram til formanns öðru sinni ákvað ég í samráði við fjölskyldu mína að það yrði mitt síðasta tímabil sem formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga. Það var ætlun mín að klára kjörtímabilið og hverfa svo til annarra starfa innan hjúkrunar.

Í janúar var hins vegar auglýst staða hjúkrunardeildarstjóra á skurðstofum Landspítala í Fossvogi. Áhugi minn innan hjúkrunar er fyrst og fremst á klínísku starfi og hef ég mikinn áhuga á að efla hjúkrun og öryggi sjúklinga í klínískri starfsemi. Ég brenn fyrir hjúkrun og skipar þar skurðhjúkrun sérstakan sess enda sérmenntaður sem skurðhjúkrunarfræðingur. Ég sé framtíð mína fyrir mér innan klínískrar hjúkrunar og þykir mér stjórnun klínískrar starfsemi afar áhugaverð.

Ég ákvað því að ég gæti ekki látið tækifærið fram hjá mér fara og sótti um umrædda stöðu. Ég fékk að vita það í gær að ég fengi stöðuna og ákvað ég að þiggja hana. Það er það rétta í stöðunni þegar ég er búinn að skoða eigin framtíðarplön og áhugasvið. Það var ekki auðvelt að taka þessa ákvörðun en ég er handviss um að hún sé sú rétta.

Ég þakka það traust sem þið hafið sýnt mér í starfi formanns. Það eru forréttindi að fá að starfa sem formaðurinn ykkar og vinna að málefnum hjúkrunar, heilbrigðiskerfisins og skjólstæðinga okkar. Þetta starf hefur bæði kennt mér margt og þroskað sem einstakling. Ég tel okkur hafa náð góðum árangri á síðustu árum en verkefnin eru enn æði mörg. Helst ber að nefna að enn á eftir að landa kjarasamningum við sveitarfélögin, klára breytingar á stofnanasamningum og lagabreytingar félagsins.

Við búum svo vel í Fíh að við eigum frábært starfsfólk. Valinn maður er í hverju rúmi og leggja starfsmenn okkar sig fram um að efla hag hjúkrunar og hjúkrunarfræðinga. Ég veit því að við verðum áfram í góðum höndum líkt og endranær.

Ég mun byrja á því að taka út það leyfi sem ég á inni og mun Guðbjörg Pálsdóttir varaformaður taka við stöðu formanns Fíh. Guðbjörg er þaulreyndur hjúkrunarfræðingur bæði í klíník og stjórnun. Hún er klínískur sérfræðingur í bráðahjúkrun á LSH auk þess sem hún hefur gegnt stöðu deildarstjóra slysadeildar, aðstoðarmanns hjúkrunarforstjóra LSH, stýrt utanspítalaþjónustu og gegnt formennsku í fagdeild bráðahjúkrunarfræðinga. Guðbjörg hefur setið í stjórn félagsins til margra ára og síðustu tvö ár hefur hún gegnt stöðu varaformanns. Ég mun setja Guðbjörgu nánar inn í starfið og tekur hún formlega við 1. apríl. Stjórn Fíh mun ákvarða framhaldið eftir því sem fram vindur.

Ég vona að sá mikli samstöðukraftur sem einkenndi hjúkrunarfræðinga í kjarabaráttu okkar s.l. sumar haldi áfram. Það er mikilvægt að við stefnum ótrauð í sömu átt og vinnum sameiginlega að því að efla hjúkrun, bæta starfsumhverfi hjúkrunarfræðinga og tryggja það að skjólstæðingar okkar fái örugga þjónustu og þá bestu hjúkrun sem völ er á hverju sinni.

Ég hlakka til að starfa áfram með félaginu á öðrum vettvangi og hlakka til að starfa með ykkur öllum innan heilbrigðiskerfisins í framtíðinni,“ segir í tilkynningu Ólafs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert