Árekstrar milli þjóðareignar og friðhelgi eignarréttar

Athuga þarf hvort gera eigi ráð fyrir gjaldi vegna hvalveiða …
Athuga þarf hvort gera eigi ráð fyrir gjaldi vegna hvalveiða eða fiskeldis verði náttúruverndar ákvæði nýrra stjórnarskrárdraga að lögum. mbl.is/Sigurður Ægisson

Árekstrar milli þjóðareignar og friðhelgi eignaréttar verður fyrsta lagalega málið sem upp mun koma í tengslum við þjóðareign náttúruauðlinda, verði drög stjórnarskrárnefndar um breytingar á stjórnarskránni að lögum. Þetta er mat Helga Áss Grétarssonar dósent við lagadeild HÍ.

Helgi fjallaði um þjóðareignarákvæðið á málþingi lagadeildar HÍ um náttúrverndarákvæði stjórnarskrárnefndar, sem haldið var í Lögbergi í dag.

„Fyrsta lagalega árekstrarmálið sem mun spretta upp verður á milli þjóðareignar og friðhelgi eignaréttar vegna þess að það er alveg ljóst miðað við núverandi stjórnskipan að aðilar sem eru að nýta auðlindir eru með ákveðin fjárhagsleg gæði sem þeir telja njóta verndar þeirra laga sem þegar eru í gildi,“ segir Helgi. Tilkoma ákvæðis um þjóðareign í stjórnarskrá eigi hins vegar að tryggja aukið svigrúm og eignaréttarlegar heimildir ríkisins eins og kostur er. „Hvað gerist svo þegar sagt er að á grundvelli þess ákvæðis þá eigi að breyta almennum lögum með tilteknum hætti til að ná ákveðnum markmiðum og þar af leiðandi muni eignaréttarákvæðið öðlast minni þýðingu en áður.“

Helgi segir orkurétt einnig skipta töluverðu máli í almennum lögum og réttindi gagnvart fasteignum. 90% þeirrar orku sem sé nýtanleg af fasteignum hér á landi, sé hins vegar í eigu hins opinbera, ýmist í gegnum félög eða í krafti eignarhalds ríkisins. Í vatnalögum og víðar sé þegar búið að setja ákvæði sem banna framsal þessa réttar þeirra eigna sem þegar eru í eigu hins opinbera.

Ekki gert ráð fyrir gjaldtöku á hvalveiðar og fiskeldi

Álitamál geti líka vaknað varðandi þjóðlendur, þó skýrt sé að eigi ríkið eign á grundvelli eignaréttar þá falli hún undir eignaréttarlög.

„Ég held að það þurfi að huga vel að því hvernig þurfi að útfæra breytingar á þjóðlendulögum m.a. með tilliti til gjaldtöku og tímabundinnar nýtingar.“ Hann nefnir auðlindir hafsins sem dæmi og segir að huga þurfi að að orðalagsbreytingu til að samræmis sé gætts. „Þar er þegar verið taka gjald af atvinnugreininni í formi veiðigjalda.“ Álitamál sé hins vegar hvort  sú gjaldtaka eigi ekki líka að snúa að nýtingu á hafinu. „Ég gat t.d. ekki séð að gert væri ráð fyrir gjaldtöku í lögum um hvalveiðar eða fiskeldi.“

Lög um loftslagsmál er snúa að úthlutun og byggja á EES rétti, séu heldur ekki endilega í samræmi við frumvarpsdrögin.

„Mér finnst að eftir öll þessi ár þá hefði verið æskilegt að þá væri ítarlegri greining í athugasemdum um hvaða áhrif ákvæðið á raunverulega að hafa á alla þá sem eru að haga starfsemi sinni á grundvelli þessara almennu laga sem ekki kunna að vera samhljóma stjórnarskrárdrögunum.“

Aðferðafræðina sé að sínu mati sú að fá meginregluna samþykkta í stjórnarskránni og síðan verði að koma í ljós hvernig pólitíkin breyti almennu lögunum til samræmis við breytta stjórnarskrá.

Helgi Áss Grétarsson
Helgi Áss Grétarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert