Stal listaverki úr Hallgrímskirkju

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tæplega sextugan karlmann í 30 daga skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa stolið listaverki að óþekktu verðmæti í forkirkju Hallgrímskirkju í ágúst í fyrra.

Maðurinn, sem á sakaferli aftur til ársins 1973, játaði brot sitt skýlaust. 

Hann hefur hlotið 39 dóma fyrir ýmis brot, aðallega auðgunarbrot, en einnig líkamsárásir, skjalafals, nytjastuld, húsbrot, eignaspjöll, umferðarlagabrot og brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Síðast var maðurinn dæmdur árið 2010 til sektarrefsingar fyrir húsbrot og eignaspjöll.

Héraðsdómur segir að maðurinn hafi gengist greiðlega við broti sínu. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga, en rétt þykir að binda refsinguna skilorði, sem í dómsorði greinir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert