Stela viðskiptum vegna verkfalls

Stjórnendur að störfum í Straumsvík.
Stjórnendur að störfum í Straumsvík. mbl.is/Golli

Ólafur Teitur Guðnason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto Alcan á Íslandi, segir að keppninautar álversins séu farnir að herja á viðskiptavini þess vegna verkfalls hafnarverkamanna sem hefur staðið yfir í tvær vikur.

„Þetta veldur okkur tjóni, ekki síst gagnvart viðskiptavinum okkar. Við heyrum það að keppninautar eru farnir að herja á okkar viðskiptavini og segja að viðskiptum við ISAL sé ekki treystandi. Þeir eigi frekar að snúa sér til þeirra,“ segir Ólafur Teitur. „Okkar keppninautar nýta sér þessa óvissu sem er hér til að stela af okkur viðskiptavinum. Það er ekki síst það sem getur verið skaðlegt fyrir okkur.“

Að sögn Ólafs Teits hefur nokkuð verið um afpantanir hjá þeim vegna þess að álverið hefur ekki fyllilega getað ábyrgst að pantanirnar komist til skila. Einhver fyrirtæki séu farin að snúa sér annað þegar þau eru að panta fram í tímann, svo þau sitji ekki uppi tómhent. „Þetta er skiljanlegt en við erum að gera okkar besta til að koma okkur út úr þessari stöðu.“

Álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík.
Álver Rio Tinto Alcan í Straumsvík. mbl.is/Ómar Óskarsson

Nítján stjórnendur álversins í Straumsvík byrjuðu að lesta áli í flutningaskip í gær og fór um hálfur skammtur í skipið, að sögn Ólafs. Þeir halda áfram störfum í dag. Skipið leggur líklega af stað  úr höfn áleiðis til Rotterdam í Hollandi á morgun.

„Þetta hefur gengið ágætlega en það er erfitt að tala um að eitthvað gangi vel þegar aðstæður eru svona.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert