Vilja hraðamyndavélar á Þingvöllum

Ólafur Örn Haraldsson við efsta hluta Almannagjár á Þingvöllum.
Ólafur Örn Haraldsson við efsta hluta Almannagjár á Þingvöllum. mbl.is/Sigurður Bogi Sigurðsson

Til stendur að setja upp hraðamyndavélar við veginn í gegnum þjóðgarðinn á Þingvöllum til að stemma stigu við miklum umferðarhraða.

Hámarkshraði á svæðinu er 50 km/klst en að sögn Ólafs Haraldssonar, þjóðgarðsvarðar, eru reglurnar ítrekað brotnar á þessum sjö kílómetra kafla.

Hann kveðst ekki vita hvort það náist að koma myndavélunum upp í sumar en nefnir einnig að hert löggæsla á svæðinu komi til greina.

Kyrrðin rofin með vélagný

Ólafur segir umferðina hafa aukist gríðarlega í þjóðgarðinum á undanförnum árum. „Menn sinna því lítið að aka á löglegum hraða. Hljóðið á svæðinu hefur líka breyst. Kyrrðin að degi til er rofin með vélagný og ekki síður með hjólbörðum sem keyra hratt í gegnum þjóðgarðinn,“ segir Ólafur og telur fyrirsjáanlegt að umferðin muni halda áfram að aukast.

Til stendur að setja upp hraðamyndavélar við Þingvallaveg.
Til stendur að setja upp hraðamyndavélar við Þingvallaveg. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Verulegt áhyggjuefni

Hann nefnir að verið sé að lagfæra vegi inn í þjóðgarðinn, eða Uxahryggjaveg frá Borgarfirði og veginn um Kjósarskarð. „Með slíkum bættum vegum eykst umferðin í þjóðgarðinn. Þetta hjarta landsins, eins og ég kalla það, er að fá sterkar slagæðar til sín. Allt endar þetta á þessum þrönga vegi með 50 km hámarkshraða. Þetta er verulegt áhyggjuefni,“ greinir Ólafur frá.

Endurbætur að hefjast

Verið er að vinna í því að Vegagerðin í samstarfi við Þingvallanefnd geri endurbætur á veginum í gegnum þjóðgarðinn. Ólafur segir veginn mjög slitinn en hann var lagður á áttunda áratugnum. „Hann var alls ekki gerður fyrir svona mikla umferð né heldur svona þunga bíla. Það er ótrúlegt hvað hann hefur dugað,“ segir hann og býst ekki við því að verkefnið klárist á einu sumri.

Þingvellir.
Þingvellir.

Vilja ekki breiðari veg

Auka á öryggi á veginum með ýmsum aðgerðum, til dæmis með því að setja upp vegrið á völdum stöðum. Að sögn Ólafs hafa Þingvallanefnd og þjóðgarðsvörður aftur á móti alfarið lagst gegn því að vegurinn verði breikkaður sem nokkru nemur. Þannig verði hægt að koma í veg fyrir að gróður eða hraun skemmist.

„Vegagerðinni ber skylda til að koma upp öryggi við veginn, sem myndi spilla gróðri og náttúrufari það mikið að við getum ekki fallist á það. Við leggjum á móti áherslu á hraðann, að halda 50 km hámarkshraða og koma upp öryggi á hættulegustu stöðunum. Ég veit að við og Vegagerðin munum ná samkomulagi,“ segir Ólafur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert