Kvikmyndaendurgreiðsla hækkar í 25%

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á Iðnþingi.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, á Iðnþingi. Ljósmynd/Samtök iðnaðarins

Um næstu áramót rennur að óbreyttu út löggjöf frá árinu 1999 sem kveður á um stuðning í formi endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar. Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, mun á morgun leggja það til við ríkisstjórn að lögin verði framlengd um 5 ár og að hlutfall endurgreiðslna hækki úr 20% í 25%.

Er þetta meðal þess sem fram kom í máli ráðherrans á iðnþingi Samtaka iðnaðarins í dag.

Ragnheiður Elín vitnaði til nýrrar skýrslu Capacent um stöðu sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðar árið 2014. Kemur þar fram að iðnaðurinn hafi það ár skilað 12 milljörðum króna í skatttekjur, sem er helmingi meira en hann fékk í formi ríkisstuðnings.

„Heildarvelta sjónvarps- og kvikmyndaiðnaðar á Íslandi jókst, samkvæmt skýrslunni, um 37 prósent árin 2009 til 2014. Bein ársverk í greininni árið 2014 voru um 1.300 og óbein ársverk um 2.000,“ sagði Ragnheiður Elín.

Þá kemur einnig fram í skýrslunni að launagreiðslur árið 2014 hafi numið tæpum 13 milljörðum króna, en bein og óbein velta kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðar það ár nam alls um 45 milljörðum króna.

„Síðasta ár var frábært í íslenskri kvikmyndagerð sem landaði um 100 verðlaunum á alþjóðlegum kvikmyndahátíðum víða um heim. Af þessu megum við öll vera stolt. Einn liðinn í þessum mikla uppgangi íslensks kvikmyndaiðnaðar má rekja til stuðnings í formi endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar sem hefur verið í lögum síðan 1999.

Sú löggjöf rennur að óbreyttu út um næstu áramót. En í frumvarpi sem ég hyggst leggja fram í ríkisstjórn í fyrramálið mun ég leggja til að lögin verði framlend um 5 ár og að hlutfall endurgreiðslnanna hækki úr 20% í 25%, sem lið í að bæta enn frekar samkeppnishæfni okkar,“ sagði ráðherrann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert